Frískápar á Íslandi eru nú orðnir sex talsins en sá nýjasti er hjá Neskirkju í Vesturbæ Reykjavíkur. Sá skápur var opnaður 20. desember 2022
Frískápar eru ísskápar staðsettir á aðgengilegum stað þar sem almenningur getur annað hvort komið með mat eða tekið sér mat. Nú eru fjórir á höfuðborgarsvæðinu, einn á Akureyri og einn á Höfn.
Fyrsta skápnum var komið fyrir við húsnæði Andrými við Bergþórugötu í Reykjavík. Kamila Walijewska stóð fyrir framtakinu og stofnaði um leið hóp á Facebook sem telur nú um 6500 meðlimi. Hópurinn er mjög virkur og má sjá nýjar færslur á hverjum degi frá fólki sem hefur nýlega fyllt á skápana eða fólki sem er að benda á hvar er hægt að nálgast frían mat eða ílát.
Ný súpa í hverri viku
Rósa Björg Jónsdóttir er ein af þremur sem hefur tekið að sér að vera með yfirumsjón með frískápnum við Neskirkju. Kíkir hún reglulega á ísskápinn, sér um að þrífa skápinn og fyllir reglulega á hann.
Rósa Björg kemur með súpur í ísskápinn 3-5 sinnum í viku sem hún matreiðir heima hjá sér. Súpurnar matreiðir hún með grænmeti sem hún verslar inn eða því sem hún fær gefins frá vinum, vandamönnum og gámagrömsurum, „fólk hefur reglulega samband við mig þegar það á auka mat, grænmeti eða krydd sem ég nýti í súpurnar. Um daginn hafði bóndakona á Suðurlandi samband við mig og færði mér tvö lambalæri, þannig ég gerði fullt af kjötsúpu.“
Maturinn farinn samdægurs
Rósa segir að súpur og matur sem er settur í ísskápinn sé alltaf farinn stuttu seinna og hún hefur aldrei þurft að henda úr skápnum, „eftir miðjan mánuð þá er ísskápurinn mjög vinsæll og þótt ég komi tvisvar sama dag þá er maturinn farinn. Það er allskonar fólk sem nýtir sér skápinn; innflytjendur, námsmenn og fjölskyldufólk sem hefur ekki mikið á milli handanna, ekki bara fólk sem er heimilislaust. Í Covid urðu ísskáparnir líka mjög vinsælir.“
Stofnendum frískápa á Íslandi langar að fjölga skápum en það sem reynist oft flókið er að finna staðsetningu og finna hvar sé hægt að fá frítt rafmagn. Frískáparnir sem eru nú í notkun nýta rafmagn frá kirkjum, bókasöfnum, húsnæði Hjálpræðishersins og tónlistarmiðstöð.
„Við ætluðum að reyna að fá frískáp hjá Háskólanum, þá væri hægt að nýta mat frá Hámu og rafmagn frá Háskólanum en okkur var neitað um það. Það er ekki vandamál að finna fólk sem er tilbúið að sjá um ísskápana og til í að fylla á þá en staðsetning og rafmagn, það er flókið.“
Opið öllum, alltaf
Mikil eftirspurn er eftir frískápum á fleiri staði og unnið er í því að finna fleiri staðsetningar.
Stofnendur og umsjónarmenn frískápanna hafa einnig haft samband við fyrirtæki sem geta nýtt sér frískápinn og forðast þannig matarsóun. „Það er misvinsælt en Brauð og co. kemur til dæmis reglulega með eitthvað,” segir Rósa Björg og bætir svo við að „frískáparnir eru á aðgengilegum stöðum og opnir allan sólarhringinn þannig hver sem er getur nýtt sér það og kannski ekki öllum sem finnst auðvelt að biðja um aðstoð.”