Heim Uncategorized Jólastressið og prófastressið

Jólastressið og prófastressið

Nemendur í Háskóla Íslands eiga erfitt með að koma sér í jólaskap í prófaundirbúningnum.
Fréttamaður stúdentafrétta fór og spurði nokkra nemendur í HÍ hvort þau væru orðin spennt fyrir jólunum og hvernig jólaundirbúningurinn gengi. Margir áttu ekki lausa stund í viðtal, sem er skiljanlegt því það var verið að trufla prófaundirbúninginn. En þeir sem gátu tekið sér pásu og spjallað voru öll sammála um eitt. Frestum jólunum eða flýtum prófunum.

Albertína Albertsdóttir meistaranemi segist vera vonsvikin að vera ekki farin að finna fyrir tilhlökkun til jólanna. „Þetta er í fyrsta skipti sem ég hef ekkert náð að skreyta eða kaupa pakka. Ég er bara að hugsa um prófin.“

Engir nemendur vildu láta taka mynd af sér vegna þess að þeim fannst þau vera „mygluð“ í prófastressinu

Albertína er líka í vinnu með námi og hefur það líka haft áhrif. „Ég þurfti að vinna ótrúlega mikið í nóvember og byrjun desember til þess að ná að taka mér frí og læra fyrir prófin.“

Jólaskólaskraut

Albertínu finnst þó að háskólinn gæti komið til móts við nemendur í engu jólaskapi og „skreyta skólann aðeins meira, hafa meiri jólastemmingu í skólanum. Þá kannski væri aðeins meira kósí að læra fyrir prófin í þessum kulda og myrkri.“

Celina Kilgren er að sama skapi ekki komin í jólaskap en finnst skreyttur skóli ekki lausnin. „Það breytir engu fyrir mig hvort skólinn sé skreyttur. Ég er í of miklu stressi“

Heitt kakó og jólatónlist enn þá á to do listanum

Hildur Lilja nemandi í HÍ sem situr í Odda að læra fyrir munnlegt próf myndi vilja hafa prófin fyrr og ná þannig að klára jólastressið og geta svo haft það notalegt, „Ég er búin að ná horfa á eina jólamynd og pakka nokkrum pökkum. En ég er ekkert búin að ná að baka eða fara í jólaröltið eða hitta vinkonu með kakó. Það er bara ekki í boði.“ Hildur er líka að vinna með námi og fer að vinna beint eftir prófið í dag.

Emil Símon sem er líka að fara í síðasta prófið sitt í dag segir „ég er ekki kominn í neitt jólaskap ef ég á að segja eins og er.“ En Símon hefur alltaf reynt að flétta saman prófastressinu og jólahuggulegheitunum. „Það getur nefnilega verið kósí að læra undir próf, koma sér vel fyrir, hafa tónlist og fínt í kringum sig. Eins og í desember í prófum þá hef ég alltaf lært með smákökur og kakó, jólatónlist og sit við jólatréð. En ég hef bara ekki haft tíma til að gera það í ár.“

Góður andi

Nellý sem starfar í Hámu segir þó að henni finnist vera góður andi og „upplifði að það væri meira stress í loftinu í fyrra.“ Nellý kaupir alltaf inn fleiri koffín drykki fyrir prófatímabil. „Ég keypti 180 mg nocco fyrir prófin núna í ár en það hefur ekki selst mikið. Yfirleitt eru nemendur að kaupa mjög mikið koffín á þessum tíma.“