Heim Fréttir Stóra LEGO keppnin — „Skemmtilegast að prófa, reyna, tapa og reyna aftur“

Stóra LEGO keppnin — „Skemmtilegast að prófa, reyna, tapa og reyna aftur“

Stóra LEGO keppnin var haldin með pompi og prakt í Háskólabíó síðastliðinn laugardag. 20 lið úr grunnskólum víðs vegar um landið tóku þátt. Alls voru það 171 krakki úr 5. til 10. bekk sem kepptu. Liðið DODICI úr Vopnafjarðarskóla bar sigur úr bítum þetta árið. 

Keppnin er haldin um heim allan eða í 110 löndum. Hún hefur verið haldin á Íslandi, af Háskóla Íslands, frá árinu 2005. Tilgangur keppninnar er meðal annars að skapa færni í vísindum og tækni, örva nýsköpun og byggja upp sjálfstraust, samvinnu- og samskiptahæfni.

Þegar leikar stóðu sem hæst spurði lýsandi keppanda í liðinu LEGO HERINN hvað væri það besta við keppnina. „Það er skemmtilegast að prófa, reyna, tapa og reyna aftur,“ svaraði keppandinn. Þetta fangar stemninguna sem ríkti í Háskólabíói á laugardaginn, keppnisgleðin, forvitnin og viljinn til að læra skein af krökkunum. 

Keppnin skiptist í fjóra hluta. Besta hönnun og forritun vélmennis, vélmennakappleikur, besta liðsheildin og besta nýsköpunarverkefnið. Einnig eru veitt jafningja verðlaun. 

Neðansjávar þrautabraut

Vélmennakappleikurinn gengur út á að hvert lið byggi LEGO vélmenni, eða þjark svokallaðan, og forriti hann til að leysa hinar ýmsu þrautir í þrautabraut. Til þess hafa þau tvær og hálfa mínútu en hver þraut veitir ákveðið mörg stig.  

Þema keppninnar í ár var „Neðansjávar“. Þrautirnar sem þjarkarnir áttu að leysa voru meðal annars að leysa kolkrabba úr búri, taka vatnssýni og reisa við mastur.

Tvö lið kljást við þrautabrautina með þjörkunum sínum.
Óveður og ófærð settu svip sinn á keppnina en hér má sjá Borgarhólsskóla á Húsavík keppa í gegnum netið.

Humarinn mikilvægur fyrir Ísland

Í ár fólst nýsköpunarverkefnið í því að liðin áttu að rannsaka hafið og vistkerfi þess. Þau völdu sér vandamál tengd hafinu og fundu lausnir við þeim. 

Vinirnir Kári Þeyr Ingason og Arthur Kehl Ferreira

Blaðamaður ræddi við þá Kára Þey Ingason og Arthur Kehl Ferreira, liðsmenn Humranna. „Liðið heitir humrarnir út af því að við erum að gera rannsókn um humra,“ segir Kári, „við erum búnir að læra fullt um humarinn.“ En hvers vegna humrar? „Það er bara mjög stórt vandamál, humarinn er að deyja út. Þeir eru mjög mikilvægir fyrir Ísland, við verðum bara fátæk án þeirra,“ segir Kári. „Þeir eru líka mikilvægir fyrir umhverfið,“ bætir Arthur við. 

Skemmtilegast að sleppa stærðfræði 

Ena Rakovic, Freyja Margeirssdóttir, Markús Mjölnir Gíslason, Vilhelm Vigfússon og Björgvin Leó Gunnarsson

Liðið Hrúðurkarlarnir rannsakaði súrnun sjávar og kynnti ræktun á þara sem lausn við því. Blaðamaður náði tali af liðsmönnum Hrúðurkarlanna. „Eins og Hafmeyjumaðurinn og Hrúðurkarlinn í Svamp Sveinsson, manstu ekki eftir þeim?“ segir Vilhelm þegar blaðamaður spyr út í nafnið. „Við ákváðum ekki að taka þátt í keppninni, kennarinn okkar ákvað það,“ segir liðið. Hrúðurkarlarnir voru ekki einróma um hvað væri skemmtilegast við að taka þátt. „Að hitta nýtt fólk og sjá krakka úr öðrum skólum,“ svarar Freyja. „Að sleppa stærðfræði,“ skjóta strákarnir inn. 

Frekari upplýsingar, myndir og streymi frá keppninni má nálgast á heimasíðu First Lego League.