Heim Pistill vikunnar Sjúkdómurinn offita

Sjúkdómurinn offita

Glansandi glamúr blað

sagði mér hvað er að

og hvað ég get gert

til að komast á rauða dregilinn

skömmustuleg á svip

ég stend fyrir framan spegilinn

en verð stolt eftir augnablik

tek upp beittan hnífinn

og sker í burtu allt spik

vitiborin menntuð

kvenréttindakona

samt er spegillinn enn þá

að sýna mig svona

mynd af appelsínuhúð og fellingum

sama hvað ég skoða mig í mörgum stellingum

hugsanir harðorðaðar hatursfullar

hef lengi ætlað að grennast

er samt ekki þung

en vil ná taki á þannig rútínu

á meðan ég er ung

til öryggis ef ófríska eða aldur

veldur auka pressu

vil ekki sjá sjálfa mig sem ennþá meiri hlessu

handleggirnir stilltir upp ef kjóllinn er ermalaus

lærin og maginn í felum, listinn er endalaus

afhverju er mér ekki sama

þótt ég viti allt sem ég veit

af hverju finnst mér

mikilvægt að verða aldrei feit

af hverju er þetta enn þá sama sagann

ég get ekki horft í spegilinn

án þess að draga inn helvítis magann

Hvað vegur þyngst?

Skaðsemi offitu hefur verið í umræðunni í fjölmiðlum upp á síðkastið og offita jafnvel kölluð sjúkdómur sem heilbrigðiskerfið þurfi að bregðast við. Manneskja í yfirþyngd sem kemur til læknis vegna heilbrigðisvanda gæti því búist við að tölurnar á vigtinni vegi þyngra en upplifun og sjúkrasaga.

BMI skilgreinir offitu sem allt yfir þrjátíu stig í kerfinu þeirra flokkast sem offita. 25-30 stig er yfirþyngd. En það þarf ekki mikið til að komast yfir þessi þrjátíu stig. Til að mynda þarf manneskja sem er 170 cm á hæð ekki að vera meira en 87 kg til að flokkast sem manneskja með „offitusjúkdóm“  og það er ekki gerður greinamunur á körlum og konum.

Ef við höldum aðeins áfram með þetta dæmi þá er manneskja sem er í þessari hæð og þyngd að nota stærðir 40-42 eða large, ekki extra large eða extra extra large.

Er þá bein tenging á milli þess að vera feitur og vera óheilbrigður? Er manneskja sem er á réttum stað á BMI stuðlinum þá með allt á hreinu?

Skaðsemi megrunarkúra fyrir andlega og líkamlega heilsu hefur margsannað sig og nú eru komin ný inngrip, þar má nefna lyf og aðgerðir sem eiga að leysa þennan vanda fyrir fullt og allt.

Læknir getur þá mælt með aðgerð eða lyfjum fyrir einstakling vegna þess að hann er tæknilega séð með sjúkdóm.

Aðgerðir og lyf

Inn á hóp á Facebook sem er tileinkaður fólki sem hefur gengist undir slíka aðgerð er fjöldinn allur af færslum frá fólki að glíma við alvarleg vandamál eftir aðgerðir. Þar má til dæmis sjá færslu frá einstakling sem getur ekki nærst og spyr hvað er til bragðs að taka. Svörin eru að þetta sé eðlileg aukaverkun og næring í æð eða næring í sondu sé lausn sem margir hafa þurft að nýta sér.

Einnig má sjá fjöldann allan af færslum frá fólki sem fær ekki sömu virkni út úr lyfjum og það fékk áður fyrr og eru ráðvillt um hvernig eigi að bregðast við. Þetta eru einstaklingar á lyfjum við flogaveiki og geðlyfjum svo dæmi séu nefnd. En óhugnanlegt þykir mér þó að sjá að margir af þessum einstaklingum voru ekki í mikilli yfirþyngd en voru þó með sjúkdóminn offitu.

Ég velti því fyrir mér hvenær læknar mæla með alvarlegum inngripum og hvort það sé gert í tilfellum þar sem þau eru óþarfi.

Við erum mismunandi eins og við erum mörg og því mismunandi hvernig við lítum út, það getur varla verið að ein þyngd sé sú eina rétta og að heilbrigði líti eins út á öllum.

Skilaboðin sem umræðan er að senda er því óhugnanleg enda er verið að jaðarsetja fólk í yfirþyngd, setja þau í ákveðinn kassa og þyngdin þeirra er sama og tap.

Í umræðunni hefur verið fjallað um aukningu á offitu en annað sem hefur líka aukist eru átraskanir. Birtingarmyndir átraskananna eru ýmsar þótt þetta orð sé oft tengt við manneskju sem minnir helst á beinagrind. En fólk með lotugræðgi getur verið í hvaða þyngd sem er. Einnig eru sumir einstaklingar með lotuofát eða binge eating disorder og aðgerð eða lyf laga varla undirliggjandi orsök röskunarinnar.

Ljóðið sem er hér í byrjun fannst mér vera ágætur inngangur inn í þennan pistil því að það að vera feitur getur ekki verið fallegt ef það er einkenni af sjúkdómi. Sjúkdómi sem er mældur með reikniformúlu frá árinu 1830.