Félagið „Stúdentar fyrir Palestínu“ kom saman í þar síðustu viku til þess að mótmæla kennslu ísraelsks prófessors við Háskóla Íslands. Þann 12. september hengdi félagið upp veggspjöld þar sem stóð að Háskóli Íslands hafi verið í samstarfi við Hebreska háskólann í Jerúsalem. Prófessorinn Ori Gure-Gurevich var fenginn til að halda fyrirlestur fyrir stærðfræðinema í HÍ en tilkynningin um fyrirlesturinn hvarf af Uglu daginn sem veggspjöldin birtust. Þetta segir Daníel Guðjón Andrason, félagi og stofnandi Stúdenta fyrir Palestínu. Daginn eftir safnaðist félagið saman fyrir utan Háskólatorg til þess að safna meðlimum og koma stefnu sinni á framfæri.
Ekki hvaða háskóli sem er
Hebreski háskólinn í Jerúsalem er umdeildur því hann hefur opinberlega lýst yfir stuðningi við Zíonísma. Samkvæmt heimasíðu skólans var hann fyrsta stóra zíonistastofnunin, stofnuð árið 1925. Í apríl birti Guardian frétt um prófessorinn Nadera Shalhoub-Kevorkian sem að starfaði í Hebreska háskólanum í Jerúsalem. Hún var handtekin fyrir að hafa talað gegn ofbeldi Ísraels á Palestínumönnum. Í fangelsinu var henni meinaður aðgangur að nauðsynjum eins og fæðu, vatni og lyfjum í nokkrar klukkustundir. Í frétt i24NEWS kemur fram að skólinn taki ekki undir málstað hennar og telji að hún hafi borið sig skammarlega. Þess vegna fordæmir félagið „Stúdentar fyrir Palestínu“ HÍ fyrir að vera í samstarfi við stofnunina.
Þrátt fyrir að 315 starfsmenn við HÍ hafi lýst yfir stuðningi við Palestínu hefur háskólinn sjálfur ekki sýnt samstöðu eða hafið viðskiptabann við Ísrael. Í frétt MBL segir rektor að „skólinn muni sjálfur ekki slíta samstarfi við ísraelska háskóla en deildum og starfsfólki sé sjálfum heimilt að taka slík skref“.
Daníel gagnrýnir HÍ fyrir að lýsa yfir samstöðu með Úkraínu en ekki Palestínu. Í frétt Vísis segir rektor „árásirnar ekki sambærilegar“. Daníel vill meina að þar sem samkvæmt reliefweb eru nærri 90% skóla í Gaza skemmdir eða eyðilagðir sé sjálfsagt að HÍ eigi að sýna samstöðu. Daníel telur þetta menntamorð á stórum skala sem ætti ekki að hunsa. Það að Háskólinn hafi ekki tekið afstöðu fær Daníel til þess að „efast um trúverðugleika stofnunarinnar“.Hann segist þó vera þakklátur fyrir að skólinn reki félagið ekki brott og að þau fái leyfi til þess að vera fyrir utan Háskólatorg. Félagið hefur einnig fengið að funda með yfirvöldum skólans og komið sínum málum á framfæri.
Markmið félagsins núna er að fjölga félögum og varpa ljósi á þær kröfur sem það gerir til skólans.
Á Facebook síðu félagsins má finna kröfurnar, þær eru eftirfarandi:
1. að HÍ slíti samstarfi við alla ísraelska háskóla og stofni ekki til nýs samstarfs.
2. að Hí geri opinber öll tengsl við ísraelskar stofnanir og fyrirtæki og bindi enda á þau.
3. að HÍ taki skýra afstöðu gegn þjóðarmorði Ísraelsríkis á hendur Palestínufólks sem og gegn eyðileggingu háskóla og menntastofnana á Gaza.
4. að Háskóli Íslands verndi tjáningarfrelsi nemenda og starfsfólks og rétt þeirra til að mótmæla á friðsamlegan hátt.
Félagið ætlar að halda áfram að þrýsta á Háskóla Íslands. Það ætlar að reyna að fá skólann til þess að bregðast við kröfum félagsins og að halda áfram að vekja athygli á málstað Palestínumanna.