Háskóli Íslands bar sigur af hólmi í fyrstu háskólakeppninni milli Háskóla Íslands og Háskóla Reykjavíkur.
Rígur milli Háskóla Íslands og Háskóla Reykjavíkur hefur verið á vörum margra háskólanema seinustu vikur. Ástæða þess er sú að ýmsar uppákomur og hrekkir á vegum stúdentafélaganna hafa vakið mikla athygli, sem dæmi má nefna heryfirlýsingu SHÍ og stöðumælasektir SFHR.
Ákveðið var að útkljá ríginn með drykkjukeppni milli skólanna í seinustu viku.
Alltaf verið óskilgreindur rígur milli HÍ og HR
Í samtali við forseta Stúdentafélags Reykjavíkur og Stúdentaráðs Háskóla Íslands kemur fram að hrekkirnir hafi allir verið hluti af markaðssetningu fyrir keppnina SFHR vs SHÍ sem haldin var til þess að útkljá ríginn.
,,Það hefur alltaf verið óskilgreint ,,beef” milli HÍ og HR. Annað hvort ert þú í HÍ eða þú ert ,,verszlingur” sem rataði í HR” segir Arent Orri J. Claessen forseti SHÍ.
Magnús Már Gunnlaugsson, forseti stúdentafélags HR, segir enga alvöru liggja á bak við ríginn og að hann hafi verið markaðssetningartól fyrir SHÍ – SFHR keppnina sem fór fram 6.september sl.
Fannst vanta keppni í félagslífið
Arent segist sjálfur hafa komið úr framhaldsskóla þar sem keppnir við aðra framhaldsskóla voru fastur liður í félagslífinu og þess vegna hafi þessi hugmynd komið upp. ,,Það var rosalega súrt þegar maður tapaði þessum keppnum en rosalega sætt þegar maður vann þær. Það sem mér fannst vanta þegar ég kom inn í félagslífið í HÍ er að það var aldrei nein keppni fyrir skólann í heild sinni, og það er það sem við í stúdentaráði erum að vinna að, og HÍ-HR dagurinn er klárlega tilraun til þess.”
Stúdentafélögin hittust í kjölfarið á fundi í sumar þar sem SHÍ kom með hugmyndina að keppni milli skóla. SFHR leist vel á hugmyndina og þá hófst skipulagningin. Ákvörðun var tekin um að halda keppnina í kringum Oktoberfest og að keppt yrði í hinum ýmsu drykkjukeppnum milli skólanna.
Hrekkir í aðdraganda keppninnar
Ræðuna má sjá í heild sinni hér að neðan:
Til þess að svara SHÍ ákvað SFHR að að ,,sekta” nemendur Háskóla Íslands fyrir skólaval. Í sektinni kemur m.a. fram að gjaldið fyrir sektina sé skömm og að ástæða ákæru sé vorkunn.
Magnús Már segir enga alvöru í rígnum og að þetta hafi verið allt í gamni gert. ,,Ein í stjórninni fékk hugmynd af sektinni og okkur öllum fannst hún mjög fyndin. Hún hannaði síðan sektina sem um 250 manns fengu síðan á farartækin sín”. Hann segir marga vini sína vera í HÍ og að þeim hafi fundist þetta mjög fyndið.
,,HR-ingar ekkert nema örlítill grenjandi minnihluti“
Keppnin milli skólanna fór þannig að HÍ sigraði með fimm stigum gegn tveimur stigum HR.
Arent segir það hafa verið sæta sjón að sjá HR-ingana mæta í sérmerktum peysum á keppnina ,,Þau lögðu rosalega mikið í það að vera öll í eins litum, SFHR peysum og eitthvað á meðan við komum bara með ,,mismatched” fólk og við bara rústuðum” Arent segir þetta vera mjög lýsandi fyrir skólana, “HR-ingar eru ekkert annað en bara örlítill grenjandi minnihluti sko”.
Magnús vonar að þessi hefð um að hafa ríg milli skóla haldi áfram, ,,Það væri allavega gaman að gantast aðeins í ykkur af og til, og þið sömuleiðis í okkur”.
Rígurinn mun halda áfram samkvæmt Arent en hann segir það allt velta á því hvort SFHR þori að halda áfram. SHÍ sé alveg sátt við það að standa áfram uppi sem sigurvegari.