Fjölskylduhátíð SHÍ fór fram á laugardaginn í íþróttahúsi HÍ. Hátíðin er skipulögð af fjölskyldunefnd stúdentaráðs háskólans og er einn af nokkrum viðburðum sem nefndin stendur fyrir yfir skólaárið. Þar voru í boði ýmislegir leikir fyrir börnin ásamt hoppukastala og hressingu.
,,Viðburðurinn gekk mjög vel og var aðsóknin góð. Veðrið var gott og gátum við boðið upp á hoppukastala á útisvæðinu, sem sló í gegn hjá börnunum.“ segir Karen Lind Skúladóttir, forseti nefndarinnar.
Á hátíðinni var hægt að teikna og lita, dansa við tónlist og fara í þrautabraut. Holle Ísland sá um að næra yngstu börnin með hollum skvísum og snakki. Heitt var á könnunni fyrir foreldra og var börnunum boðið upp á kanilsnúða og safa. Karen segir að fjölskyldunefndin vilji þakka börnum og foreldrum fyrir mætinguna og vonar að öll hafi skemmt sér vel.
Markmið Fjölskyldunefndarinnar er að gæta hagsmuna foreldra í námi og halda viðburði fyrir nemendur sem eiga börn til að kynnast og hafa gaman saman, segir Karen.
Þau berjast fyrir því að það sé tekið sérstakt tillit til foreldra í námi, bæði hvað varðar námslán og fæðingarorlof sem og önnur mál sem koma að fjölskyldunni. Nefndin leggur sérstaka áherslu á að virkt eftirlit sé með því að ekki sé kennt eftir kl. 17 á daginn eða um helgar og að góð tenging sé á milli fjölskyldufulltrúa og Félagsstofnunar stúdenta.
Ásamt fjölskylduhátíðinni heldur nefndin jólaball í desember sem er ætlað börnum bæði nemenda og starfsfólks. Í október er stefnt að því að Íþróttaskólinn hefjist, en þar geta foreldrar komið með börnin einu sinni í viku og stutt þau í frjálsum leik.
Hægt er að fylgjast með komandi viðburðum og starfsemi nefndarinnar á Facebook og Instagram.