Fjarverandi í 22 ár

Vilhelm Anton Jónsson kann vel við sig í Hámu. Mynd: Ómar Úlfur

Maður er aldrei of gamall til að læra er orðatiltæki sem er stundum fleygt fram. En er eitthvað til í þessu? Getur þriggja barna faðir á fimmtugsaldri skráð sig í nám samhliða fólki sem er talsvert yngra? Og hvað fær fólk til að setjast aftur á skólabekk jafnvel eftir áratuga hlé?

Vilhelm Anton Jónsson getur mögulega svarað þessum spurningum. Villi naglbítur, eins og hann er oftast kallaður, sló fyrst í gegn árið 1995 þegar að hljómsveitin hans 200.000 naglbítar lenti í þriðja sæti á Músíktilraunum. Sveitin vakti verðskuldaða athygli fyrir óhefðbundna texta og grípandi lög en Villi lét ekki þar við sitja. Hann lék besta vin Sveppa í Sveppamyndunum og bjó til persónuna Vísinda – Villa sem kynnti töfra vísindanna fyrir yngstu kynslóðinni í bókum og sjónvarpsþáttum.

Uglan erfiðust

Villa langaði að eigin sögn lengi aftur í háskóla en var ekki viss um hvað hann langaði að læra. „Ég er með BA gráðu í heimspeki og ég var að spá í að taka master í því.“ En eftir að hafa talað við námsráðgjafa ákvað hann að fara í hagnýta menningarmiðlun, sem að tónar afskaplega vel við það sem hann hefur starfað við lengi. Heimildarmyndagerð, útvarpsþáttagerð, hlaðvörp og textagerð eru hluti af náminu og taldi námsráðgjafinn að þetta myndi liggja vel við Villa.

              Villi segir að það sé talsverður munur á námi nú og þegar að hann settist seinast á skólabekk fyrir tuttugu og tveimur árum. „Fokking Ugla! Það er nóg fyrir mann á mínum aldri að læra á kennslukerfið, fyrir utan námið og allt er orðið miklu tæknivæddara“ segir Villi sem bætir því við að hann sé með börn í leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla og síminn því fullur af menntunaröppum sem pípa á hann í tíma og ótíma.

              Stólarnir eru ennþá lélegir, netið slappt og fæstir kunna á skjávarpa rétt eins og þegar að Villi var seinast við nám í háskólanum. Sumt breytist aldrei.

HÍ forever

Það eru nokkrir nemar á svipuðum aldri sem hafa komið sér upp spjallþræði sem að fékk nafnið HÍ forever. „Ég, Stefán Snær hönnuður og Grímur Atlason eigum eftir að hittast á Stúdentakjallaranum og Grímur fær sér Pepsi og við hinir bjór og ræðum stúdentalífið“ segir Villi og glottir í kampinn. Hann bætir því við að nú sé lag að skella sér í stúdentapólitíkina, eitthvað sem að hann lét alveg vera síðast.

Nám er ódýrara en fólk heldur

Í bæði skiptin sem að Villi hefur hafið nám á háskólastigi hefur hann byrjað á viðtali við námsráðgjafa sem hann mælir með að sem flestir geri. Framboðið af námi sé þannig að allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. „Það fyrsta sem að kom mér á óvart er hvað þetta kostaði. Ég gerði ráð fyrir að önnin kostaði 400.000 kr. en gjaldið er bara 70.000 kr. á ári.“ Það sé bara sama krónutala og þegar Villi mætti hingað á gamalli Toyotu Corollu með Þ númeri.

 Tilgangur Villa með þessu námi er ekki að klára gráðu og skella sér út á vinnumarkaðinn. Miklu frekar að skipta um umhverfi, hitta nýtt fólk og fá ferskar hugmyndir. „Annars væri maður bara heima að hafa áhyggjur af peningum og ruslinu og setja í vél.“

Leggur stundum í einkastæði

Flestir sem að tvinna saman námi og fjölskyldulífi mæta líklega í skólann á bíl. Jafnvel þótt Villi og fjölskylda búi í göngufjarlægð frá háskólanum þarf stundum að hendast upp í bíl. „Það fer oft klukkutími á morgnana í að skutla í leikskóla og grunnskóla í öðru hverfi.“ Þá komi fyrir að lagt sé fyrir framan hús á Aragötu segir fjöllistamaðurinn kátur á meðan að hann klæðir sig í mokkajakkann og drífur sig í næsta tíma.