Stúdentakjallarinn hefur verið lykilstaður í félagslífi nemenda Háskóla Íslands síðan að hann opnaði árið 1975. Þar hefur ávallt verið lögð áhersla á því að skapa afslappaða og skemmtilega stemmningu fyrir nemendur og gesti.
Halldór Guðmundsson rekstrarstjóri stúdentakjallaranns segir að meginstefna þeirra varðandi viðburði vera að hverjum sem er sé velkomið að halda viðburði þar svo lengi sem hann er ókeypis fyrir gesti. Hvort sem um er að ræða ljóðalestur, tónleika, foosball mót eða vísindaferð, eru hurðirnar opnar. ,,Við rukkum ekki inn, svo ef einhver vill halda viðburð má bara heyra í mér og við sjáum hvað við getum gert“ segir Halldór.
Samvinnan við nemendafélög mikilvæg
Að auki tekur hann fram að kvöldvaktir á barnum eru mannaðar af háskólanemum, þar sem það skapar tengsl milli staðarsins og stúdentanna sjálfra. ,,Mér finnst það meika mest sense, þar sem við erum með barinn fyrir stúdenta er eðlilegt að þeir vinni hérna líka“
Aðsóknin er breytileg yfir vikuna, þar sem mánudagar og þriðjudagar eru rólegir en mikill fjöldi gesta safnast saman á föstudögum og laugardögum. Stúdentakjallarinn hefur einnig haldið tónleika í samvinnu við LHÍ og MÍT tvisvar í mánuði, og meira er á dagskrá í vetur. Þá er mikil áhersla lögð á samvinnu við nemendafélög og Stúdentaráð HÍ, sem hafa nýtt kjallarann í ýmsa Vöku- og Röskvuviðburði.
Kjallarinn mun áfram bjóða upp á fjölbreytt félagslíf þar sem bæði stúdentar og aðrir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Til stendur að halda tónleika, pub quiz, kvikmyndasýningar, uppistönd og fjölbreyttar uppákomur. Einnig verður áfram hægt að koma saman á daginn og fylgjast með íþróttaleikjum, þar sem kjallarinn sýnir leikina á stórum skjá. Á næstunni munu halda áfram að vera viðburðir sem höfða til allra stúdenta, með sérstökum áherslum á skemmtun og félagslega samveru. Einnig verður áfram boðið upp á reglulega happy hour og sérstaka viðburði til að fagna áföngum í skólaárinu.