Margir nemendur sem búa á Stúdentagörðum finna fyrir óöryggi, þar sem löng hrina af innbrotum og þjófnaði hefur átt sér stað í háskólaíbúðunum.
Alveg síðan byrjun annar hafa fjölmargir ólíkir hlutir horfið á grunsamlegan hátt á íbúðarsvæði HÍ. Fjölmargir íbúar Stúdentagarðanna finna fyrir stressi og kvíða á sínu eigin heimili, vitandi að þau gætu verið næsta fórnarlamb þessara þjófa.
Þvotturinn er ekki einu sinni öruggur
Eiríkur Þór Heiðarsson, nemandi í HÍ sem býr á Stúdentagörðum, segir í samtali við blaðamann Stúdentafrétta að Boss-hettupeysa frá honum hafi verið stolin af þvottagrind hans í sameiginlega þvottahúsi hússins. Óprúttinn aðili komst inn í ólæsta þvottahúsið og hnuplaði þar peysunni og hvarf með hana inn í nóttina.
„Mér fannst þetta mjög fúlt. Þetta var ein af uppáhalds peysunum mínum og ég fékk hana í afmælisgjöf frá pabba, konu hans og yngstu systur minni árið á undan,” segir Eiríkur.
Eiríkur póstaði um þjófnaðinn á sameiginlega íbúðarsíðu á Facebook. Hann sagðist ætla að tilkynna stuldinn til lögreglu en lét svo ekkert verða af því.
Eiríkur, eins og margir aðrir, þorir ekki að skilja nein föt eftir í þvottahúsinu eftirlitslaust, þar sem hann er hræddur um að svona gæti komið fyrir aftur.
„Ég allavega geymi aldrei föt niðri lengur sem mega ekki fara í þurrkara, hengi allt upp hérna heima, leiðinlegt þar sem það tekur ágætt pláss út lítilli íbúð en ég bara treysti því ekki að geyma fötin mín niðri lengur”
Stefanía Silfá Sigurðardóttir, einnig nemandi í HÍ sem býr á Stúdentagörðum, segir í viðtali við Stúdentafréttir frá því þegar brotist var inn um baðherbergisgluggann í íbúð hennar og öllum hárvörunum hennar stolið. Um var að ræða hárvörur að andvirði 35.000 íslenskar krónur, sem fyrir marga háskólanemendur er gríðarlegur peningur.
Félagsstofnun Stúdenta er vel vör yfir þessum glæpum
Í svari Félagsstofnunar stúdenta (FS) við fyrirspurn Stúdentafrétta segir að talsvert hafi verið um þjófnað undanfarna mánuði. FS ítrekar að þau hafi orðið vör við aukinn þjófnað undanfarna mánuði, en að þetta virðist koma í bylgjum. Þau ítreka í svari sínu að þessi innbrot einskorðist ekki við Stúdentagarða heldur svæðið í heild sinni, Háskólann Íslands og fleiri byggingar í nágrenninu.
Í svari þeirra kemur einnig fram að þau hafi kannað möguleikann á að setja upp öryggismyndavélar á einstaka stöðum, en þau telja að það myndi veita falskt öryggi og með þeim myndi fylgja flókið ferli tengt persónuvernd.
Jafnframt kemur fram hjá FS að þau hafi tekið upp á því að halda utan um tölfræði er varðar þjófnað svo hægt sé að fylgjast betur með stöðu mála. Eins og staðan er núna er FS ekki með nóg gögn til að segja til um hvort aukningin sé eða ekki.
FS hvetur íbúa Stúdentagarða sem verða fyrir þjófnaði að tilkynna slíkt til lögreglu og að hafa einnig samband við sitt tryggingafélag varðandi bætur.
Talsvert er um innbrot og þjófnað víða í Reykjavík samkvæmt tölum lögreglu
Send var fyrirspurn til Lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu (LRH) um upplýsingar um innbrot á fyrstu níu mánuðum þessa árs.
Upplýsingar bárust frá Upplýsingar- og áætlunardeild LRH en tekið er fram að um bráðabirgðatölur sé að ræða og samkvæmt þeim bráðabirgðatölum hafa innbrot og þjófnaðir í Vesturbæ og Miðbæ aukist miðað við fyrstu níu mánuðina í fyrra.
Um er að ræða innbrot á heimili, ökutæki og í fyrirtæki/verslanir/stofnanir/samkomustaði.
Lítið hefur breyst frá því í fyrra
Í ágúst 2023 sendu nokkrir íbúar Eggertsgötu tölvupóst til Félagsstofnunar Stúdenta (FS) og lýstu áhyggjum sínum af tíðum innbrotum og þjófnuðum.
Í tölvupóstinum kemur fram brot af þeim atvikum sem íbúar Stúdentagarðanna hafa lent í, m.a.: Bílrúður brotnar (Brotnar rúður á bílum), átt hefur við lása á íbúðunum, þvottur stolinn, grunsamlegar mannaferðir í kringum húsin og hlutum stolið í gegnum glugga.
Einnig er sagt frá í tölvupóstinum um ákveðinn atburð sem lýsir miklu ljósi á öryggisleysi svæðisins, en það er þegar óviðkomandi aðilar brutust inn í tóma íbúð í einu af húsunum og gengu mjög illa frá, en talið er að þetta hafi verið í gangi í nærri tvo mánuði.