Heim Fréttir Prófljótan tekur yfir: Slangur sem útskýrir ástand nemenda í jólaprófum

Prófljótan tekur yfir: Slangur sem útskýrir ástand nemenda í jólaprófum

Jólaprófin eru á döfinni og prófatíðinni fylgir oft breytt ástand í lífi nemenda. Stundum er rætt um prófljótuna. Hún er að mati margra óhjákvæmilegur hluti þess að vera háskólanemi í lokaprófum. En hvað felst í því að vera með prófljótuna? Hvaðan kemur þetta fyrirbæri?

Prófljótan er almennt þekkt sem tímabil þar sem maður hefur ekki tíma eða orku til að hafa sig til, baugar eru farnir að myndast undir augunum og maður gengur um í þægilegu fötunum. Allar stundir fara í það að læra fyrir próf og allt annað verður að bíða betri tíma.

Orðið „prófljótan“ kemur fram á vefnum ordabokin.is, sem er íslensk nýyrða- og slangurorðabók. Þar er hugtakinu lýst sem ástandi sem nemendur komast í þegar þeir eru að undirbúa sig fyrir próf. Þá slá menn af sínum eigin útlitskröfum og leyfa sér að líta verr út en venjulega.

Fyrsta dæmið sem er að finna um notkun á orðinu „prófljótan“ er í dagblaði Fréttatímans frá því í nóvember 2010. Þar er fjallað um að prófljótan sé hugtakið sem afsakar útlit okkar.

Í pistli Fréttatímans kemur fram að margir séu að nota þetta orð. Það má því giska á að í kringum 2010 hafi notkun orðsins aukist meðal háskólanema.

Prófljótuleikurinn

Í vorprófunum 2012 stóð Stúdentaráð Háskóla Íslands fyrir „prófljótuleik“ þar sem nemendur HÍ birtu mynd af sér eða vinum sínum með prófljótuna á vegg Facebook-síðu SHÍ. Þeir þrír einstaklingar sem fengu flest „like“ á myndina sína áttu möguleika á að vinna HTC Wildfire S síma frá Nova.

Yfir 30 nemendur birtu myndir á vegg SHÍ og tóku þátt í leiknum. Myndirnar voru yfirleitt af þreyttum nemendum að bugast yfir prófalestri eða ekki upp á sitt besta útlitslega séð.

Hér má sjá nokkur dæmi af myndunum sem nemendur birtu:

Leikurinn náði athygli fréttamiðla og skrifaði Vísir frétt um hann. Kastljós var einnig með umræðu árið 2012 um prófljótuna þar sem spjallað var við nemendur HÍ um hana.

RÚV birti pistil árið 2018 þar sem þau gáfu nemendum góð ráð fyrir prófljótuna. Þau ráð eru að hreyfa sig, taka lærdómspásur, drekka vatn og að vera sæt.

Hugtakið enn mikið notað

Þó að tímar séu breyttir og orðið eigi sér greinilega langa sögu er það enn mikið notað í dag.

Ekki er óalgengt að nemendur birti myndir af sér eða umhverfinu sínu á Instagram þar sem þeir lýsa því að „prófljótan sé að taka yfir“. Einnig er vinsælt að birta mynd af sér þegar prófin eru búin og segja að „prófljótan sé búin að kveðja“.

Miðillinn þar sem er vinsælast að tjá sig um prófljótuna virðist þó vera X (áður Twitter). Það gæti verið vegna þess að þar er ekki þörf á því að birta mynd, sem margir eru ekki til í að gera þegar þeir eru með prófljótuna. Hér má sjá nokkur dæmi af tístum sem fólk hefur birt undanfarin ár:

Lokaprófin eru erfiður tími fyrir nemendur og þess er að vænta að maður líti ekki jafn vel út og maður gerir restina af árinu. Mikilvægt er að muna að þetta er tímabundið ástand og þegar jólaprófin eru búin getur maður kvatt bækurnar í smá tíma og gert sig sérstaklega sætan fyrir jólin og áramótin.