Það var ekki leiðinlegt á Háskólatorgi síðastliðinn miðvikudag þegar hundurinn Ninja, fjögurra ára golden retriever, leyfði háskólanemum að knúsa sig og klappa. Ninja er til þjónustu reiðubúin og nemendur taka henni fagnandi.
Nemendaráðgjafateymi Háskóla Íslands býður nú nemendum að koma og klappa hundi alla miðvikudaga frá 12:30-13:15 fram til 11. desember. Öllum nemendum er velkomið að koma og er framtakið hugsað til þess að koma til móts við þá sem upplifa streitu í lokaprófunum.
Markmiðið að hjálpa nemendum í prófatíð
Sigríður Margrét Einarsdóttir náms-og starfsráðgjafi við háskólann segir hugmyndina upprunalega hafa komið upp vegna rannsókna sem sýndu að dýr, aðallega kettir og hundar, hafi róandi áhrif á fólk sem í kjölfarið minnkar streitu. ,,Við finnum að það er þörf fyrir lokaprófin að nemendur hafi einhver bjargráð, og þetta var svona liður í því að hjálpa nemendum í prófatíð”.
Boðið er upp á hundaklappið í stofu 301 á Háskólatorgi, nemendaráðgjafateymið segir pælinguna einnig vera að nemendur geti komist í rólegt umhverfi og slappað af jafnvel þótt þeir klappi ekki hundinum.
Stemningin var hins vegar ekki mjög slakandi vegna þess að fjöldinn allur af nemendum mætti og nýtti sér það að klappa Ninju sem var hæstánægð með alla athyglina.
Aðsóknin mikil
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem nemendum er boðið að koma og klappa hundi en á geðheilbrigðisdögum í fyrra kom einmitt hundur í heimsókn. Bjarnhildur Agnarsdóttir sálfræðingur við Háskóla Íslands segir aðsóknina þó vera mun meiri núna og segir framhaldið lofa mjög góðu.
Upplifun nemenda var mjög góð, nemandi sem blaðamaður náði tali af sagði það hafa verið þægilegt að geta komið og klappað hundi, sérstaklega þar sem hann ætti engin gæludýr sjálfur. Sigríður segir prófin ekki vera eina streituvaldinn hjá nemendum ,,Það getur alls konar spilað inn í, t.d. eru margir nemendur sem finna fyrir heimþrá og þá gæti þetta verið sniðugt”. Sigríður segir þetta eins vera gott tækifæri fyrir nemendur til þess að kynnast þjónustunni sem nemendaráðgjafarnir bjóða upp á og sjá hvar námsráðgjafateymið hefur aðsetur.
Útskrifuð af hundavinanámskeiði
Ninja er fjögurra ára golden retriever hundur. Hún er útskrifuð af hundavinanámskeiði Rauða Krossins en þar gerir hún æfingar ásamt eiganda sínum sem nýtast í heimsóknunum. Hundarnir sem útskrifast af námskeiðinu fara svo í hin ýmsu verkefni, verkefnin geta verið frá því að fara í heimsókn á leikskóla og allt að því að fara í heimsóknir á elliheimili.
Eins og fyrr segir verður Ninja á Háskólatorgi alla miðvikudaga fram til 11. desember. Nemendaráðgjafateymi HÍ hvetur nemendur til þess að huga að andlegri heilsu í prófatíð og því er tilvalið að heilsa upp á Ninju í stofu HT-301.