Heim Fréttir Góð ráð fyrir lokaprófin: „Við græðum ekkert á því að vaka heilu...

Góð ráð fyrir lokaprófin: „Við græðum ekkert á því að vaka heilu næturnar og koma svo örmagna í próf”

„Í háskólanámi er ekkert hægt að læra bara korter í próf” segir Kristjana Mjöll Sigurðardóttir náms- og starfsráðgjafi, en blaðamaður settist niður með henni til að ræða hagnýt ráð vegna undirbúnings fyrir lokaprófin. Kristjana segir svefn, hreyfingu, mataræði, slökun og trú á eigin getu vera mikilvægustu atriðin þegar kemur að persónulegum undirbúningi fyrir próf.

Heilbrigðar venjur skipta sköpum

Kristjana Mjöll Sigurðardóttir

Kristjana talar um að það sé mikilvægt að halda svefninum alltaf jöfnum og mikilvægt sé að halda góðri svefnrútínu þrátt fyrir álag. „Við græðum ekkert á því að vaka heilu næturnar og koma svo örmagna í próf”. Svefn hjálpar okkur að vinna úr öllum upplýsingum sem við höfum farið í gegnum yfir daginn. Kristjana nefnir einnig mikilvægi hreyfingar og mataræðis. Hreyfingu segir hún hjálpa við úthald og einbeitingu „þegar maður er í námi og prófum er úthaldið það sem skiptir máli”. Hreyfingin þarf heldur ekki að vera mikil, það er hægt að fara út í stuttan göngutúr eða jafnvel dansa eða sippa. Einnig er mikilvægt að borða hollan og fjölbreyttan mat sem gefur næringu og orku. Það getur líka verið sniðugt að útbúa góðan mat í lestrarpásu og rifja upp í leiðinni efnið sem er búið að fara yfir. Kristjana nefnir að slökun eða núvitund sé mjög hjálpleg til að draga úr kvíða eða streitu. Einnig þarf að hafa trú á eigin getu og muna að próf eru ekki algildur mælikvarði á þekkingu eða hver þú ert. ,,Alltof margir nota kannski einkunnir sem mælikvarða á sjálfan sig” segir Kristjana.

Mikilvægt að þekkja eigin tilfinningar

Tilfinningar geta sveiflast mikið á próftímabilum, Kristjana segir það því mikilvægt að þekkja eigin tilfinningar og eiga í jákvæðum samræðum við sjálfan sig. Einnig segir hún að það sé mikilvægt að hræðast ekki sínar eigin tilfinningar. Það er „bara eðlilegt að hafa smá kvíða eða spennu fyrir próf, það hjálpar manni að kveikja á einhverjum neista”.  Kvíði getur komið nemendum úr jafnvægi. Hún segir að það sé mikilvægt að reyna að vera alltaf í jafnvægi. Kristjana segir að það geti verið gott þegar maður kemur inn í próf og er kvíðin að reyna að dreifa huganum. ,,Þegar maður kemur inn í prófið getur verið gott að horfa á yfirsetukennarann, hvað skyldi hann hafa fengið sér í morgunmat? Bara eitthvað svona absúrd”.

Tímaáætlanir og skipulag skipta máli 

Skipulag er einnig mjög mikilvægt þegar kemur að prófatíðinni. Kristjana segir að það geti verið gagnlegt að vera með langtímaáætlanir og daglegar tímaáætlanir. Hægt er að finna eyðublöð fyrir tímaáætlun á HÍ síðunni. ,,Um leið og maður er kominn með upplýsingar um hvernig maður ætlar að nýta sér daginn eru meiri líkur á að maður lesi það sem skiptir máli og maður sé þá ekki bara að eyða tímanum í eitthvað” segir Kristjana. Einnig segir hún að það sé mikilvægt að vera með hæfilega langar vinnulotur með hléum. Hún segir þó persónubundið hversu lengi hver einstaklingur getur lært í einu, sumir geta haldið einbeitingu í klukkutíma eða meira, en aðrir gætu þurft að brjóta tímann meira upp. ,,Það er mikilvægt að standa aðeins upp í 5 mínútur á hverjum klukkutíma og svo taka ágætis hádegishlé og byrja svo bara aftur. Svo þetta sé svolítið eins og maður væri í vinnu”.

„Undirbúningur á líka í raun og veru að vera fólginn í að rifja eitthvað upp. Þú ert vonandi ekki að frumlesa” segir Kristjana. Hún segir einnig að gott sé að flokka efnið niður eftir efnisatriðum og nota kennslubókina, glósur og kennsluáætlun til hjálpar við flokkunina. Einnig er mikilvægt að eyða allri óvissu um prófið og svara spurningum á borð við: Hvernig verða spurningarnar? Er þetta krossapróf, ritgerðapróf eða einhver blanda? Á hvað verður lögð áhersla og hver hefur áhersla kennara verið á misserinu? Nemendur þurfa einnig að ákveða hvernig þeir ætla að vinna með námsefnið og Kristjana nefnir að það geti verið hjálplegt að lesa upphátt „bara til að útskýra fyrir sjálfum sér hvað maður er að lesa”. Hún nefnir að vinnuaðferðir séu persónubundnar og hvetur nemendur til að halda sig við þá aðferð sem hefur gagnast þeim best. Kristjana mælir einnig með því að nemendur kynni sér prófreglur Háskóla Íslands, þar er hægt að finna upplýsingar um hvað má hafa með sér í próf og hvað skal gera ef veikindi koma upp.

Passa vel upp á svefn og næringu

Þegar kemur að prófadeginum er mikilvægt að mæta vel sofinn og vel nærður til prófs. Mikilvægt er að ef að þú ert í prófi um morguninn að vera ekki að lesa mikið fyrir prófið um morguninn frekar bara að næra sig og láta það gott heita sem þú last frá kvöldinu áður. ,,Maður sér stundum nemendur sitja úti í bíl og alveg á fullu að lesa, það eru oft ekkert góðar aðstæður og eru bara kvíðavaldandi” segir Kristjana. Kristjana nefnir einnig að það sé ekki sniðugt að fara að tala við samnemendur bæði fyrir og eftir próf þar sem það getur aukið kvíða.

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um undirbúning prófa, úrræði í námi og prófum og sálfræðiþjónustu á heimasíðu Háskóla Íslands.