Heim Fréttir Óveður setur strik í reikning ferðamanna: „Kannski er betra að koma í...

Óveður setur strik í reikning ferðamanna: „Kannski er betra að koma í haust eða í mars“

Stormur gengur yfir landið í dag og á morgun og hefur Veðurstofa Íslands gefið út appelsínugular viðvaranir sem taka gildi síðdegis. Raskanir eru á flugáætlun og hefur fjölda fluga bæði hjá Icelandair og PLAY verið aflýst. Ferðamenn sem blaðamaður ræddi við, sem höfðu lent í því að flugi þeirra var aflýst, telja mikilvægt að vera sveigjanlegur í ferðaplönum þegar ferðast er til Íslands.

„Ég held að við höfum verið svolítið ómeðvituð um hversu mikið veðrið getur breyst og hversu hratt. Flugi mínu var aflýst á föstudaginn og fluginu þeirra var aflýst á laugardaginn. Það er mikilvægt að vera tilbúinn að vera sveigjanlegur og að fylgja straumnum. Ef einhverju er aflýst, finndu þá bara eitthvað annað að gera – það höfum við þurft að gera,“ segja írskir ferðamenn sem blaðamaður ræddi við. Þær segjast þó ekki stressa sig mikið yfir veðrinu, enda hafi þær séð að það gengur hratt yfir.

Ekki eru þó allir ferðamenn jafn afslappaðir. „Kannski er betra að koma hingað í haust eða í mars, það er mikill stormur þessa vikuna,“ segja ítalskir ferðamenn, sem einnig urðu fyrir því að flugi þeirra var aflýst.