Í Háskóla Íslands stendur til boða bænaherbergi í Aðalbyggingu skólans sem er aðgengilegt öllum nemendum og kennurum. Herbergið er friðsælt rými fyrir þá sem vilja stunda bænir, hugleiðslu eða einfaldlega draga sig í hlé frá annasömu háskólalífi.
Herbergið má finna í kjallara Aðalbyggingarinnar í stofu 49, en þar fara reglulega fram skipulagðar athafnir. Stórmoskan á Íslandi stendur fyrir bænastundum fyrir múslíma sex sinnum á dag. Einnig heldur hugleiðsluhópur háskólans, Buddhist Meditation Study Group, hugleiðslutíma á þriðjudögum í vor frá kl. 16:00 til 17:30. Tímarnir eru leiddir af José Tirado, búddistapresti, en hann hefur iðkað hugleiðslu í rúm 50 ár.
Upplýsingar um bænaherbergið og ýmsa viðburði innan þess má finna á plakötum víðs vegar á háskólasvæðinu og þar að auki fyrir utan herbergið sjálft.
Til að auðvelda múslímum að stunda bænir sínar er höfð merking í bænaherberginu sem vísar á Kaaba í Mekka, helgasta stað Íslam. Þannig geta þeir sem biðja verið vissir um að snúa í rétta átt meðan á bænum stendur.

Háskólakapella býður einnig upp á guðþjónustu
Á annarri hæð Aðalbyggingarinnar má finna glæsilega kapellu sem býður upp á allt sem almennar kirkjur bjóða upp á. Kapellan hýsir reglulegar guðsþjónustur sem eru aðgengilegar kennurum og stúdentum en rýmið er aðallega notað af nemendum í guðfræði og trúarbragðafræði.

Háskólinn styður við fjölbreytt samfélag kennara og nemenda og vill byggja upp inngildandi skólasamfélag. Því er aðgangur að trúarlegum athöfnum og aðstöðu til að iðka trú sína jákvæð þróun í átt að fjölbreytileika og trúfrelsi innan háskólasamfélagsins.