Heim Nemendafélag vikunnar „Við tengjum rosalega við það að falla á sama prófinu tvisvar“

„Við tengjum rosalega við það að falla á sama prófinu tvisvar“

Nemendur í Vísindaferð til Advel

Orator er nemendafélag lögfræðinema við Félagsvísindasvið í Háskóla Íslands; Stefán Þórarinn Hermannsson, formaður nemendafélagsins, svaraði nokkrum laufléttum spurningum um Orator.

Hvernig varð nafn nemendafélagsins til og/eða hvað þýðir það?

Nafnið þýðir „ræðumaður“ á latínu og kom til vegna þess að félagið var upphaflega stofnað árið 1928 til þess að þjálfa laganema í ræðumennsku.

Ef þú ættir að líkja lífinu í ykkar deild við sjónvarpsþátt, hver væri sjónvarpsþátturinn?

Ég myndi líkja lífinu við lagadeild við fyrstu seríu af Better Call Saul. Við lærum í gamalli byggingu og allir þekkjast einhvern veginn.

Hvert er mottó nemendafélagsins?

Við eigum okkur ekki mottó eins og er, en við í stjórn vinnum undir frasanum „þetta reddast“.

Stefán Þ. Hermannsson formaður Orator

Hver væri draumavísindaferðin?

Til Mannréttindadómstóls Evrópu líklega.

Ef félagið ætti lukkudýr, hvað myndi það þá vera?

Það á lukkudýr og það er grágás. Hún er í logoinu.

Hver er eftirminnilegasta vísindaferðin sem af er skólaárinu?

Eftirminnilegasta vísindaferðin hingað til er líklega annaðhvort til Advel lögmannsstofu eða Lex. Hjá Advel var Kokteilbarinn með bás og þeir leigðu líka körfuboltavél og voru með karaokeherbergi. Lex var með live- hljómsveit og fyrirlestra um lögfræðileg álitaefni.

Hver er stærsti viðburður ársins hjá félaginu?

Fyrir utan árshátíðina okkar má nefna skíðaferðina sem stendur yfir í tvær nætur sem og Hátíðarmóttöku Úlfljóts sem er eins konar fögnuður bóksölunnar og útgáfufélagsins Úlfljóts sem er starfrækt af laganemum. Þar eru allir voða fancy og opinn bar, síðast haldið í Iðnó.

Hvar slaka nemarnir í deildinni á?

Það eru nokkrir staðir. Í anddyri Lögbergs, á 2. hæð Lögbergs, á skrifstofu Orators, í Lögbergsdómi, á Lesstofu laganema, sumir ráfa út í Odda til að læra en það heyrir til undantekninga.

Oratornemar eru…?

Meðlimir Orator eru samheldinn og kærleiksríkur hópur.

Hvaða Kardashian/Jenner systir væri Orator?

Það liggur augum uppi að Orator eignar sér Kim Kardashian þar sem hún tók Bar Exam (lögfræðipróf í BNA) þrisvar. Við tengjum rosalega við það að falla á sama prófinu tvisvar.

Sigurvegarar í Orator Oratorum