Heim Fréttir „Ætlum klárlega að kaupa okkur áskrift“

„Ætlum klárlega að kaupa okkur áskrift“

Innan úr Háskólarækt HÍ
Líkamsrækt Háskóla Íslands við Sæmundargötu.

„Það er allt hérna sem maður þarf og miðað við verðið er þetta frábær díll,“ segir Magdalena Bubenikova um Háskólaræktina. Nemendur og starfsmenn Háskóla Íslands eru almennt ánægð með líkamsræktarstöð háskólans. Þrátt fyrir að vera smá í sniðum býður hún upp á góða aðstöðu á sanngjörnu verði.

Háskólaræktin hefur verið opin öllum nemendum og starfsmönnum Háskólans að kostnaðarlausu undanfarnar tvær vikur. Samkvæmt Ara Haukssyni, starfsmanni Háskólaræktarinnar, hefur aðsókn verið minni þetta ár ef miðað er við síðasta ár þar sem einnig var boðið upp á frítt prufutímabil. Viðbrögðin sem hafa borist eru þó afar jákvæð. 

„Þetta er mjög gott hérna, hreint og fínt. Manni líður vel. Fólkið er skemmtilegt og andrúmsloftið gott. Við ætlum klárlega að kaupa okkur áskrift,“ segja Caterina Fineschi, Erasmus nemandi í tungumálafræði, og Tilde Mackintosh, Erasmus nemi í lífverkfræði.                                            

Háskólaræktin er við Sæmundargötu, á milli Háskólatorgs og Árnagarðs. Áskrift fyrir eitt háskólaár er aðeins 12.000 krónur, sem veitir aðgang að tækjasal, íþróttasal, gufubaði og öllum opnum tímum. Boðið er upp á fjölbreytt úrval af opnum tímum, þar á meðal pilates, jóga, þrek og körfubolta.

Þrjár stelpur í Háskólaræktinni
Ester Meirink, nemi í stjörnufræði, Magdalena Bubenikova, nemi í opinberri stjórnsýslu og félagsmálastefnu, og Marie-Keza Jannsen, nemi í lífverkfræði, í Háskólaræktinn.

„Það er allt hérna sem maður þarf og miðað við verðið er þetta frábær díll. Það er ekki troðið og maður kemst alltaf að. Búningsklefarnir eru hreinir og yfir höfuð er þetta fínasta aðstaða. Fyrir mig sem byrjanda í líkamsrækt hentar þetta mjög vel.“ Segir Magdalena Bubenikova, nemi í opinberri stjórnsýslu og félagsmálastefnu, og fleiri tóku undir.