Heim Fréttir Dægrastytting háskólanema

Dægrastytting háskólanema

Sigið niður í Þríhnúkagíg

Hvort sem nemendur æfa íþróttir, leggja stund á tónlistarnám eða eitthvað allt annað þá getur verið meinhollt að loka námsbókunum reglulega og beina athyglinni að öðru um stund. Á ári hverju stunda um 14 þúsund nemendur nám við Háskóla Íslands og því ekki furða hversu mörg fjölbreytt áhugasvið leynast innan veggja skólans. Blaðamaður Stúdentafrétta fór á stúfana og tók tal af þremur nemendum háskólans sem eiga það sameiginlegt að vera aðeins meira en bara námsmenn.

Hreppti óvænt fyrsta sætið

Helga tekur við verðlaunum í Stokkhólmi/aðsend

Helga Signý Sveinsdóttir er nemi í sálfræði en þegar hún er ekki að læra fyrir próf eru allar líkur á því að hún sé að þróa uppskrift að nýjum og spennandi kokteil til að keppa með. Hún hefur unnið á Tipsý kokteilbar í rétt tæplega tvö ár en fyrsta keppni sem hún tók þátt í var Barlady í febrúar 2024 og öllum að óvörum, ekki síst henni sjálfri, hreppti hún fyrsta sætið. 

„Ég hefði aldrei keppt ef þau á Tipsý hefðu ekki ýtt mér út í það. Barlady var samt svo góð keppni til að byrja á af því að það vilja allir sjá þér ganga vel og þetta er hugsað fyrir konur og kvár í bransanum. Mér fannst galið að vinna þetta og fara út til Aþenu að keppa í alþjóðlegu keppninni upp á risa sviði með fullt af fólki sem er frábært í þessu. Nýbyrjuð og vissi ekki neitt en það var samt fáranlega gaman og ég lærði mjög mikið af því að keppa úti.“

Keppnir, vaktir á barnum og skólinn halda Helgu svo sannarlega við efnið og hún segir mikla vinnu á bak við hvern drykk. 

„Að gera drykk fyrir keppni tekur alveg tíma, þú þarft fyrst að skoða hvað þú ert að vinna með og búa til concept. Svo þarftu að prófa þig áfram og semja kynningu á drykknum. Ég mæti oft kannski fjórum tímum fyrr upp í vinnu ef ég er að undirbúa mig fyrir keppni.“

„Það vantar fleiri stelpur sem vilja keppa“

Stundum kemur það fyrir að Helga neyðist til að sleppa keppnum sem stangast á við prófatörn eða annað í háskólanum. Hún segist samt eiga erfitt með að leiða hugann alveg hjá því og slysist oft til að velta fyrir sér hvernig drykk hún myndi gera út frá keppnisáfenginu eða conceptinu. Að lokum nefndi Helga hversu mikil samheldni er innan kokteilakeppnisbransans.

„Þetta er mjög svona tight-knit hópur sem maður kynnist þegar maður byrjar að keppa. Allir eru mjög spenntir að sjá mann og þetta er oft sami hópurinn af fólki sem maður hittir á keppnunum. Mér finnst það geðveikt næs hversu mikið samfélag þetta er. Barlady sérstaklega, enda vantar fleiri stelpur sem keppa. Það er fullt af frábærum barþjónum sem bara dettur ekki í hug að taka þátt en það er svo gaman og góður stökkpallur fyrir annað.“

Æfir sig helst í kirkjum

Einar spilar á orgelið í Hallgrímskirkju/aðsend

Einar Hugi Böðvarsson er nemi á 2. ári í tölvunarfræði með gervigreind sem kjörsvið og stórskemmtilegt en jafnframt óalgengt áhugamál samhliða því. 

„Ég byrjaði að æfa á orgel þegar ég var 15 ára. Þá æfði ég í Garðinum og spilaði í Útskálakirkju. Organistinn þar kenndi mér þangað til ég flutti í bæinn til að byrja í Háskólanámi og hætti að  spila á orgelið í nokkur ár. En ég var að æfa á píanó og tók miðpróf í píanóleik fyrir tveimur árum. Þá gat ég sótt um orgelnám hjá Tónsskóla Þjóðkirkjunnar og er síðan búinn að taka grunnpróf og miðpróf í orgelleik.“

Einar segir að Tónskóli kirkjunnar sé ólíkur öðrum tónlistarskólum að því leyti að þar sé kennd kórstjórn og einnig kirkjufræði. Þó sé ekki skilyrði að vera trúaður til að æfa í Tónskólanum en mögulega betra að vera ekki mótfallinn kirkjunni. Hann tók miðprófið í orgelleik meðfram tölvunarfræðináminu og segir það hafa verið ákveðna áskorun.

„Já, það var frekar mikil vinna. Ég þurfti að skila dæmum í skólanum og vera að hitta orgelkennarann og æfa mig reglulega. Það voru þrjú eða fjögur verk til prófs hjá mér sem eru eftir Bach og um það bil ein mínúta hvert. Svo eru tónstigar og tónstigar á pedal. Það vita mögulega ekki allir að það er spilað með fótunum á orgel.“

Erfiðast að spila í útför

Einar spilaði nýverið í útför afa vinar síns en hann segir það hafa verið erfitt en þá sérstaklega vegna þess hversu viðkvæmt umhverfið er. Annars æfir hann á orgelið í Neskirkju reglulega og sér fyrir sér að halda því áfram og jafnvel sækja um fastráðningu. Þangað til megum við í háskólanum vera þess heiðurs aðnjótandi að hlusta á Einar spila innan veggja skólans. 

„Ég held að það viti mögulega ekki allir af því en það er kapella í aðalbyggingunni. Þar er orgel sem ég hef fengið að spila á einu sinni þegar það voru haldnir tónleikar. Svo gæti reyndar vel verið að þeir verði fleiri seinna.“

Best að enda daginn á góðum svefni í sínu eigin rúmi

Urður og Ísabella Sól hátt uppi/aðsend

Urður Matthíasdóttir er á sínu þriðja ári í læknisfræði í háskólanum en hún hóf síðasta sumar að starfa sem leiðsögumaður.

„Vinkona mín var að vinna hjá Inside the Volcano og fannst það æði. Ég vann sem þjóðgarðsvörður í Landmannalaugum síðustu sumur og hef mjög gaman af því að vera sem mest úti þannig að þetta starf heillaði. Algjör plús líka að geta farið þennan milliveg að vinna úti við þetta en geta samt endað daginn á því að sofa í sínu eigin rúmi.“

Hún starfar sem „tail guide“ en þá fylgir hún hóp upp að lyftu sem er svo látin síga niður í Þríhnúkagíg en það er óvirkt eldfjall og því er túrinn alveg einstök upplifun. Hún nefnir einnig að allt starfsfólkið fái þjálfun í fyrstu hjálp en sjálf sé hún reynslumikil í faginu.

„Mér finnst sjálfri lang skemmtilegast þegar það er rok“

„Ég er búin að vera í björgunarsveitinni í nokkur ár núna og vön því að labba upp á hálendi. Þetta eru um það bil tveir kílómetrar upp að gíg og við löbbum eftir svona hrygg. Það getur verið óþægilegt fyrir ferðamenn sem eru óvanir að labba þarna upp í slæmu veðri. Mér finnst sjálfri lang skemmtilegast þegar það er rok og helst bara óveður. Þá verður þetta svo mikið ævintýri og það myndast svo mikil stemning. “

Eins og margir háskólanemar í læknisfræði bauðst Urði að vinna á spítalanum í sumar en hún kaus leiðsöguvinnuna fram yfir hana einfaldlega upp á tilbreytinguna að gera. 

„ Í sumar var ég alveg í fullu starfi að guidea og þá tekur maður svona tarnir en svo er ekkert mál oftast að skipta innbyrðis um vaktir. Tímabilið klárast í október en þangað til er ég að taka eina og eina helgi en ég er líka á spítalanum núna einu sinni í viku með skólanum sem er passlegt finnst mér.“

Urður segir útivistina án efa hjálpa sér í skólanum en hún nái að gleyma sér alveg og þetta sé nánast eins konar hugleiðsla. Henni finnst æðislegt að taka vakt eftir langa viku þar sem námsefnið var einstaklega þungt og mikill lestur.