„Maður, manneskja, man eða menni?“ nefnist þriðji fyrirlestur hádegisraðar RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum undir yfirskriftinni ,,Hinsegin Ísland í alþjóðlegu samhengi.“ Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus við Háskóla Ísland í íslenskri máltækni, heldur fyrirlesturinn.
Eiríkur skoðar í fyrirlestrinum orðið maður og setur það í sögulegt samhengi segir í kynningu RIKK um fyrirlesturinn. Hann skoðar einnig þær hindranir sem upp hafa komið þegar reynt hefur verið að færa orðið í kynhlutlausari merkingu. Skoðar hann möguleikana á að tala á kynhlutlausari hátt með því að nota maður á annan hátt eða nota önnur orð en maður. Eiríkur lokar fyrirlestrinum með því að skoða kosti og galla annarra orða sem reynt hefur verið eða stungið upp á að nota í staðinn – manneskja, man og menni.
Á síðustu árum hefur Eiríki fjallað um stöðu og framtíð íslenskunnar og þar á meðal kynjamál og kynhlutleysi í máli. Hann segir að tungumálið sé fyrir okkur öll en ekki útvalda og því nauðsynlegt að umræða um málfar og tungumálið sé jákvæð og umburðarlynd. Eiríkur hefur einnig fjallað um fornafnið ,,hán“ og mikilvægi þess að það verði partur af málinu í vísun til þeirra sem ekki vilja láta nota karlkyns eða kvenkyns persónufornöfn um sig. Hann heldur einnig úti öflugu bloggi um íslenska málfræði um mál líðandi stundar.
Fyrirlesturinn verður haldinn kl. 12.00 miðvikudaginn 19. október í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og sýndur í beinu streymi.
Opnir hádegisfyrirlestrar RIKK er vettvangur fyrir kynningar á innlendum og erlendum rannsóknum sem snúa að kvenna- og kynjafræði og margbreytileika. Frekari upplýsingar um fyrirlestraröðina má finna á heimasíðu RIKK og Facebook-síðu stofnunarinnar.