Fræðimenn þurfa að láta betur í sér heyra í þjóðfélagsumræðunni og veita fjölmiðlum og stjórnmálamönnum aðhald, segir Þórður Snær Júlíusson.
Þórður er ritstjóri vefmiðilsins Kjarninn og stundakennari við HÍ. Hann er reyndur blaðamaður og hefur starfað hjá ýmsum fjölmiðlum, svo sem Morgunblaðinu, Fréttablaðinu og Viðskiptablaðinu. Fyrir nokkru voru drög að breytingum á fjölmiðlalögum kynnt í samráðsgátt stjórnvalda, en helsti tilgangur þeirra er að framlengja styrkjakerfi fjölmiðla um tvö ár. Talsvert óvissa ríkir þó um framhaldið.
Fjölmiðlar hafa átt undir högg að sækja eftir tilkomu internetsins og samfélagsmiðla. Rekstrartekjur þeirra hafa dregist saman mjög hratt og starfandi fjölmiðlafólki hefur fækkað um helming á nokkrum árum. Þórður fer yfir málin í viðtali við Stúdentafréttir:
Telur þú að nýja fjölmiðlafrumvarpið muni hjálpa til við að skapa betra umhverfi fyrir fjölmiðla á Íslandi?
Í drögum að breytingum eru fjölmiðlar skilgreindir sem “hornsteinn lýðræðis”. Það er klárlega skref fram á við, því þetta mikilvæga hlutverk fjölmiðla er það sem réttlætir ríkisstuðning við einkarekna fjölmiðla. Stuðningskerfið er góð viðbót en það þarf miklu meira að koma til: fyrir stóru miðlana er styrkjakerfið aðeins dropi í hafið, það þarf líka að bæta rekstrarumhverfi þeirra, til dæmis með því að taka ríkisfjölmiðilinn af auglýsingamarkaði.
Síðan hafa samfélagsmiðlar sogað til sín miklar auglýsingatekjur. Með því að skattleggja samfélagsmiðla á borð við Facebook og Twitter væri hægt að stofna sjóð sem hefði það hlutverk að styrkja fjölmiðlana betur.
Síðast en ekki síst þarf að skapa stöðugt rekstrarumhverfi: styrkjakerfið gerir ráð fyrir að föst upphæð sé deild niður á fjölmiðla eftir stærð þeirra. Þar sem miðlunum getur fjölgað eða fækkað og stærð þeirra breyst getur styrkurinn sem hver og einn miðill fær til sín sveiflast töluvert frá ári til árs, og það skapar óvissu. Kerfið var sett á fót í fyrra en var aðeins samþykkt til eins árs. Nú verður það líklega framlengt um tvö ár en eftir það veit enginn hvað tekur við. Fyrirsjáanleikinn er enginn og við þessar aðstæður er afar erfitt að skipuleggja reksturinn fram í tímann.
Það er líka óboðlegt að vera upp á náð og miskunn duttlunga einhverja þingmanna sem sumir hverjir hafa horn í síðu manns út af umfjöllun um þá. Það vantar sem sagt langtímasýn hjá stjórnvöldum, sem stafar fyrst og fremst af því að ríkisstjórnarflokkarnir eru mjög ósamstíga.
Internetið og samfélagsmiðlar hafa gjörbreytt umhverfi fjölmiðla, ekki alltaf til batnaðar. Nefnd hafa verið upplýsingaóreiða, óheft flæði falsfrétta, nafnlaus áróður, persónuníð og fleira. Getur verið að við séum stundum of fljót að stökkva á lestina þegar tækninýjungar eru annars vegar. Hefðum við getað lágmarkað skaðann með því að grípa fyrr í taumana?
Ég held að það sé afar erfitt að gera sér grein fyrir allar hugsanlegu afleiðingar tækninýjunga fyrirfram. Aðalatriðið er að bregðast við nógu fljótt þegar vandamálin birtast okkur. Það er það sem hefur vantað upp á: við vitum hvað þarf að gera en erum stundum of lengi að grípa til aðgerða.
Hlutverk fjölmiðla er meðal annars að veita stjórnvöldum og stofnunum aðhald. En hver á að veita fjölmiðlum aðhald?
ÞSJ: Notendur fyrst og fremst. Þeir kjósa með veskinu (eða með augunum ef svo má segja). Því upplýstari sem notendur eru því betri verða fjölmiðlarnir. Síðan erum við með fjölmiðlanefnd sem hefur ákveðið aðhaldshlutverk og fjölmiðlalögin sem eiga að setja fjölmiðlum skýr mörk. Svo er siðanefnd sem er rekin af Blaðamannafélagi Íslands og aðilar sem telja á sig brotið í fjölmiðlum geta kært til hennar og úrskurðir hennar eru gerðir opinberir. Vilji þeir fara lengra geta þeir kært fyrir dómstólum.
Eru fræðimenn við HÍ eða öðrum fræðistofnunum nógu duglegir við að sinna fjölmiðlum og stjórnmálamönnum aðhald, leiðrétta rangfærslur og benda á hvað má betur fara?
Nei, alls ekki. Þátttaka fræðimanna í þjóðfélagsumræðunni er alltof takmörkuð á Íslandi. Ástæðan fyrir því, ef marka má rannsóknir, er að þeir eru einfaldlega hræddir – oft með réttu. Ýmsir aðilar í valdastöðu hafa farið mjög langt í að leggja stein í götu fræðimanna sem hafa tjáð sig opinskátt um ýmis málefni.
Mér er í fersku minni þátttaka Jóns Steinssonar hagfræðings í umræðunni um fiskveiðistjórnunarkerfið. Jón Steinsson er virtur fræðimaður sem starfaði þá við Columbia-háskólann í New York, en skrif hans urðu til þess að Kristján Vilhelmsson útgerðarstjóri Samherja sendi kvörtunarbréf til háskólans þar sem Jón Steinsson var sakaður um brot á siðareglum skólans.
Fræðimenn sem þora að stíga fram eru gjarnan gerðir tortryggilegir eða lítið úr þeim gert og þar af leiðandi eru margir smeykir við að láta í sér heyra. Það er mjög miður.
Tími flokksmálgagna er að mörgu leyti liðinn. Í dag eru fjölmiðlar óháðari stjórnmálaflokkum. Hins vegar eru þeir alltaf háðir lesendum (eða notendum) sínum. Blaðamenn þurfa að segja sannleikann, en sannleikurinn er ekki alltaf vinsæll. Hvernig nálgast blaðamenn þessa þversögn?
Jú, maður stendur oft í þeirri stöðu að vilja segja frá einhverju sem maður telur eiga mikið erindi við almenning, en áhuginn hjá lesendum er ekki alltaf til staðar. Það er alltaf erfið staða til að vera í og engin töfralausn í þessu.
Gott dæmi um þetta er mál sem er mikið til umræðu þessa daga: slæm staða ÍL-sjóðsins. Ég hef verið að fylgjast með þessari tímasprengju í langan tíma og vissi að þarna væri um stórt hagsmunamál að ræða, en það eru ýmis tæknileg atriði í þessu máli sem gera það að verkum að fréttir um málið vekja kannski ekki mikinn áhuga hjá almenningi. Það er erfitt að setja þetta mál í slíkan búning að fólk skilji það auðveldlega, þar sem það var líka langur aðdragandi sem þarf að rekja langt aftur í tímann. Það var ekki fyrr en nú, þegar fjármálaráðherra setti málið á dagskrá á blaðamannafundi fyrir nokkru, að fjölmiðlar fóru að taka upp þráðinn. Við hjá Kjarnanum höfum einmitt verið að rekja þessa sögu ítarlega.
Maður reynir að klæða fréttaefnið í þann búning að lesandinn geti skilið um hvað málið snýst án þess að vera sérfræðingur á tilteknu sviði, en það gengur misjafnlega upp.
þetta er eilífðaráskorun, segir Þórður og dæsir…