Heim Fréttir Alltaf haft áhuga á fátækt, ójöfnuði og stríðsátökum

Alltaf haft áhuga á fátækt, ójöfnuði og stríðsátökum

„Mér líður dálítið eins og ég hafi fengið boð um að spila í Meistaradeildinni. Það að fá að tala um bókina mína hér á eftir, þetta er draumur hverrar manneskju sem hefur gefið út bók,“ sagði Sigríður Víðis Jónsdóttir, rithöfundur, í upphafi erindis síns á málþingi sem Félagsfræðingafélag Íslands hélt þann 2. desember í Veröld. Sigríður gaf nýverið út bók sína Vegabréf: Íslenskt og byggist bókin á ferðalögum hennar um ýmis átakasvæði heimsins á meðan hún starfaði sem blaðamaður á árum áður. Er þetta önnur bók Sigríðar en áður hafði hún gefið út bókina Ríkisfang: Ekkert.

Ferðalag um svæði ójafnaðar, fátæktar og átaka

Sigríður tók áhorfendur í salnum í ferðalag með upplestri sínum úr nokkrum köflum bókarinnar. Lýsti hún m.a. upplifun sinni af stöðum líkt og Sýrlandi, Eþíópíu og Suður-Súdan og lýsir bókin þeim ójöfnuði sem fyrirfinnst í þeim löndum en kemur Sigríður einnig inn á hluti eins og forréttindablindu og menningarsjokk. Áhrifaríkt var þegar Sigríður hafði lesið upp og talað um reynslu sína í Suður-Súdan, þar sem hún hafði þurft að leita sér læknisaðstoðar fyrir 3000 krónur en voru það mánaðarlaun eða jafnvel tvöföld mánaðarlaun sumra einstaklinga sem hún hafði talað við og eytt tíma með á ferðalagi sínu. Sigríður hafi svo komið heim fyrir jólin:

„Ég fer í kringluna og fæ mitt fyrsta og eina menningarsjokk sem ég hef fengið. Ég sé þarna auglýsingu sem er gjöf fyrir þá sem elska að ferðast en ég man að ég horfði á þetta og hugsaði með mér í hvaða samfélagi ég byggi, hvernig er þetta eðlilegt að gefa bara gjafabréf sem kostar svona 20.000 krónur. Hvað er hægt að hjálpa mörgum fyrir þennan pening?“.

Sigríður les upp úr bók sinni

Vissi ekki hve félagsfræðileg bókin væri

Sigríður kemur sjálf ekki úr heimi félagsfræðinnar en hún tók á sínum tíma heimspeki til BA-prófs með mannfræði sem aukagrein. Lýsti hún því á málþinginu að það hafi komið skemmtilega á óvart að fá boð til að kynna bók sína frá Félagsfræðingafélagi Íslands.

„Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki alveg áttað mig á því að bókin mín fjallaði um félagsfræði. Fyrir mér samanstóð hún fyrst og fremst af þemum sem ég hef alltaf haft gríðarlegan áhuga á eins og fátækt, ójöfnuði, stríðsátökum og afleiðingum þeirra“.

Eftir erindi Sigríðar tóku við pallborðsumræður þar sem, auk Sigríðar, Guðmundur Ævar Oddsson, dósent við Félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri, Þorgerður Einarsdóttir, prófessor í kynjafræði við Háskóla Íslands og Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands tóku til máls. Ræddu þau sína uppáhalds kafla úr bókinni og settu í félagsfræðilegt samhengi ásamt því að svara spurningum úr sal. Greinilegt var að bókin hafði vakið mikla athygli fræðinganna en t.a.m. lét Sigrún eftir sér:

„Ég held að ég hafi verið búinn að lesa sirka 10 blaðsíður þegar ég var orðinn algjörlega obsessed á þessari bók og taldi hana bara vera félagsfræði og fór að hugsa hvernig ég gæti notað hana í námskeið hjá mér um ójöfnuð“.

Aðeins léttari ferðalög framundan

Aðspurð hvað sé framundan og hvort þessum kafla í lífi hennar sé lokið sagði Sigríður að hún hafi ekki endilega tekist á við þessa reynslu sína á sínum tíma nema með þeirri aðferð að skrifa hana frá sér sem blaðamaður. Eftir að hafa hins vegar farið að skrifa bókina og rifjað upp sögurnar sé hún spennt fyrir að fara aftur, þó kannski með aðeins öðruvísi hætti.

„Núna er ég svakalega peppuð fyrir að fara í fleiri ferðalög og maðurinn minn og börnin mín líka til í það. Ég veit ekki hvort við verðum alveg að fara að heimsækja vöruskemmur í Bosníu en við getum kannski tekið svona léttu útgáfuna“.

Framúrskarandi ritgerðir verðlaunaðar

Ragnhildur Inga tekur við verðlaunum fyrir framúrskarandi ritgerð til BA-prófs

Á málþinginu var einnig veitt verðlaun fyrir framúrskarandi lokaritgerðir í grunn- og meistaranámi í félagsfræði síðasta vor. Fyrir framúrskarandi lokaritgerð í grunnnámi hlaut Ragnhildur Inga Magnúsdóttir verðlaunin fyrir ritgerð sína Viðhald eða ögrun orðræðunnar? Birtingarmynd umfjöllunar um kynferðisbrot. Markmið ritgerðarinnar var að greina þá orðræðu sem fjölmiðlar notast við í umfjöllun sinni um kynferðisofbeldi. Fyrir framúrskarandi ritgerð á meistarastigi hlaut Arnbjörg Jónsdóttir verðlaunin fyrir ritgerð sína „Þannig þekki ég svona margt fólk hérna“: Áhrif félagslegra tengsla á reynslu og lífskjör flóttafólks á Íslandi. Markmið ritgerðarinnar var að greina frá reynslu flóttafólks af því að setjast að á Íslandi og skoða félagsleg tengslanet þeirra.