Heim Fréttir Bæna- og hugleiðsluherbergi HÍ

Bæna- og hugleiðsluherbergi HÍ

Bæna- og hugleiðsluherbergi HÍ

„Ég tel að þetta sé mjög nauðsynlegt herbergi þar sem fólk af öllum trúarbrögðum getur iðkað trú sína, hugað að sinni andlegu hlið og fundið innri frið. Það er nauðsyn að hafa slíkt herbergi í háskólanum.“

Þetta eru orð Muhammed Emin, fyrrum nemandi í HÍ en hann nýtti sér Bæna- og hugleiðsluherbergi Háskólans nánast daglega. Herbergið var opnað árið 2008 og er í suðurkjallara í Aðalbyggingu en hefur skipt um staðsetningu nokkrum sinnum.

Kapellan í Aðalbyggingu HÍ

„Bænaherberið hefur verið í Aðalbyggingu í fjölda ára. Upphaflega var öllum velkomið að fara í kapelluna og er enn, en einhverjum hópum fannst hún ekki henta fyrir sig og úr varð þetta herbergi,“ segir Laufey Sigurðardóttir rekstrarstjóri á upplýsinga og tæknisviði við HÍ um rýmið.

Hefði getað orðið úr sögunni

Mynd af Muhammed að biðja og nemendum HÍ að hugleiða

Þessi möguleiki varð að veruleika þökk sé Yusuf Tamimi, fyrrum nemenda í HÍ, sem barðist fyrir að rými tileinkað öllum trúarbrögðum yrði opnað. Hann og fleirum vantaði rými til að biðja í næði og hugleiða.

Muhammed Emin þurfti að berjast fyrir því að halda þessum möguleika opnum þegar hann var í HÍ.  „Seinna á námsárum mínum varð erfiðara að berjast fyrir því að hafa svona herbergi í boði og engin fjárveiting var til að halda herberginu við.“ Muhammed  hafði samband við José Tirado sem er búddistaprestur og doktorsnemi í HÍ og í sameiningu fengu þeir fjárveitingu.

José frétti af herberginu í gegnum samnemanda en hann segir það algengt að fólk finni herbergið þannig: „Mér leið eins og ég væri að fá að vita af einhverju leyniherbergi og hafði aldrei heyrt um það áður. Þeir sem koma í hugleiðslu með mér fréttu af herberginu í gegnum vin eða maka. En ég hef sett upp plaköt til að auglýsa rýmið því mér finnst að fleiri ættu að vita af þessum möguleika.“

Allir velkomnir

Í dag er herbergið notað í ýmsum tilgangi, til dæmis leiðir José hugleiðslu í herberginu einu sinni í viku. Hann er í hóp á Facebook sem heitir hugleiðsluhópur háskólans en í honum eru 472 meðlimir. Í hverja hugleiðslu mæta allt frá fimm upp í tuttugu nemendur.

Ragnhildur Helga Hannesdóttir sem er að mastersnámi í mannfræði nýtir sér rýmið til að hlúa að sjálfri sér: „Ég hef verið að mæta á morgnana og finnst muna um það að mæta og hugleiða, það setur tóninn fyrir daginn og er áminning fyrir mig að hlúa að mér.“

Kristinn Helgason nemandi við guðfræðideild nýtir sér rýmið oft: „Mér finnst herbergið mjög notalegt og hef gaman að vera þar þegar hópurinn hittist, herbergið hefur vissulega sinn sjarma. En það full lítið, sérstaklega miðað við hversu margir nýta sér það.“

Herbergið er í dag skreytt með myndum frá alls kyns trúarbrögðum, þar er að finna bækur um trúarbrögð og hugleiðslu. Þar eru einnig bænamottur og hugleiðslupúða og gestabók sem er við það að fyllast.