Jafnréttisdagar háskólanna fóru fram á dögunum en markmið þeirra er að stuðla að umræðu um jafnréttismál og að gera þau sýnileg innan skólans sem utan. Dagskráin var fjölbreytt og samanstóð af fjölda fyrirlestra, umræðna og alls kyns viðburðum sem tengjast jafnrétti og málefnum líðandi stundar.
Undanfarið hefur orðið bakslag á heimsvísu þegar kemur að jafnrétti og mannréttindum og telja því Arnar Gíslason og Sveinn Guðmundsson, jafnréttisfulltrúar Háskóla Íslands, mikilvægt að halda umræðunni um jafnréttismál, fjölbreytileika og inngildingu gangandi. „Þetta bakslag sem er búið að vera að tala um bæði í sambandi við réttindi kvenna, réttindi hinsegin fólks, innflytjenda og fleiri. Þá er það bara ofboðslega mikilvægt að halda umræðunni gangandi, að sækja sér upplýsingar og að fólk taki þátt í mannréttindastarfi.“ Segir Arnar Gíslason.