Heim Fréttir ,,Ég held að þolinmæðin í samfélaginu sé á þrotum”

,,Ég held að þolinmæðin í samfélaginu sé á þrotum”

Ljósmynd: Silla Páls

,,Rannsóknarteymið ætlar að nýta heimasíðuna til þess að birta nýjustu rannsóknir, viðtöl og erindi af fundum og ráðstefnum” segir Dr. Ásta Dís Óladóttir í samtali við blaðamann Stúdentafrétta.

Háskóli Íslands birti á þriðjudaginn s.l., á sjálfan Kvennafrídaginn, nýja heimasíðu undir yfirskriftinni ,,Hvernig lokum við kynjabilinu í atvinnulífinu?”.
Blaðamaður hafði samband við Dr. Ástu Dís Óladóttur, prófessor í Viðskiptafræðideild og formann Jafnvægisvogarráðs, sem fer fyrir rannsóknarteyminu.

,,Við höfum nú þegar sett inn fjölda greina um stöðu kynjanna í atvinnulífinu auk nýs mælaborðs sem að Deloitte og Creditinfo hönnuðu fyrir Jafnvægisvogina 2023. Stefnt er að því að þær upplýsingar verið uppfærðar á sex mánaða fresti og það er nýjung hér á landi. Mælaborðið getur því gagnast þeim sem eru að rannsaka stöðu kynjanna í atvinnulífinu og fyrir fjölmiðla” segir Ásta.

Langflestir stjórnendur eru karlar

,,Staðan er þannig núna að karlar eru 79% allra framkvæmdastjóra hér á landi. Flestir skilja betur ef ég nota orðið forstjóri, sá aðili sem stýrir fyrirtækinu. Stjórnir félaga eru yfirleitt skipaðar 3-5 aðilum, þá eru konur einungis fjórðungur stjórnarmanna en karlar 75%. Það má sjá á þessu að karlar eru mun fjölmennari við ákvarðanatökuborðið í atvinnulífinu ef svo má segja, því æðsti stjórnandi og stjórn taka allar veigamestu ákvarðanirnar og þar eru karlar eins og áður sagði í miklum meirihluta” segir Ásta Dís og bætir við ,,en þetta er auðvitað allt hægt að sjá á nýja mælaborðinu”.

Stjórnir og fjárfestar geta haft áhrif

Að sögn Ástu Dísar væri hægt að loka kynjabilinu með því að setja kynjakvótalög á framkvæmdastjórnir félaga, líkt og gert var árið 2010 með stjórnir félaga. ,,Stjórnir fyrirtækja sem eru með fleiri en 50 starfsmenn eiga að hafa 60/40 hlutfall kynja meðal stjórnarmanna. Að innleiða slík lög tekur skemmstan tíma, kannski ekki ákjósanlegasta leiðin en það væri hægt að fara hana. Þá geta stjórnir og fjárfestar einnig haft mikil áhrif með því einfaldlega að taka ákvörðun um að við þetta ástand verði ekki búið lengur, en væntanlega mun það taka lengri tíma”.

Hvað eru kynjagleraugu?

,,Já það er von að þú spyrjir, kynjagleraugu er það er þegar litið er á eitthvað viðfangsefni út frá kynjasjónarmiði. T.d. að líta á fjárfestingar með kynjagleraugum líkt og við erum að gera í rannsóknum okkar og Freyja Þórarinsdóttir, doktorsnemandi minn og stofnandi Gemma Q er að gera. Það er eitt af því sem við erum að benda t.d. lífeyrissjóðum á sem eru stærstu einstöku fjárfestarnir á markaðnum. Hvernig er kynjasamsetning þeirra fyrirtækja sem þeir fjárfesta í. Eru lífeyrissjóðirnir tilbúnir til þess að fjárfesta í félögum sem eru einsleit, hafa t.d. bara karla í stjórn, eða bara konur. Við viljum sjá fjölbreytni því hún skilar árangri og auðvitað í fleiri breytum en bara kyni, t.d. aldur, menntun, uppruni o.s.frv… en hér erum við að leggja áherslu á kynjasjónarmiðin” segir Ásta Dís.

Mjakast ekkert áfram í atvinnulífinu

,,Ég er svo heppin að ég er ekki ein í þessu, enda gæti ég það ekki. Ég er með frábæra sérfræðinga með mér, þau David Gaddis Ross, prófessor við University of Florida, David Anderson, dósent við Villanova University, Gary L. Darmstadt, prófessor við Standford og stjórnanda Global center for gender equality við sama skóla, Hrefnu Guðmundsdóttur meistaranema, Margréti Vilborgu Bjarnadóttur, dósent við University of Maryland – Robert H. Smith School of Business, Sigrúnu Gunnarsdóttur prófessor við Háskóla Íslands og Þóru H. Christiansen, aðjúnkt við Háskóla Íslands. Þá erum við einnig í virku samtali og samstarfi við atvinnulífið, fyrirtæki og stofnanir á borð við Creditinfo, GemmaQ, Landssamtök lífeyrissjóða, Nasqad Ísland og Pay Analyctis. Svo má ekki gleyma bakhjörlum rannsóknanna, Festi, Símanum og Viðskiptaráði” segir Ásta Dís.

,,Ég held að þolinmæðin í samfélaginu sé á þrotum. Við höfum beðið alltof lengi eftir því að ná fullu jafnrétti en það mjakast nánast ekki neitt áfram í atvinnulífinu og staðan hefur verið nánast óbreytt undanfarin ár, með þessu áframhaldi munum við ekki ná þessu markmiði fyrr en árið 2048” segir Ásta Dís.