Heim Fréttir Einn áfangi í einu í stað margra

Einn áfangi í einu í stað margra

„Það eru deildirnar sem bera ábyrgð á kennslunni. Ef einhver ætlar að fara í lotukerfi þá er það deildin sem ákveður það,“ segir Guðrún Geirsdóttir, dósent og deildarstjóri Kennslumiðstöðvar Háskóla Íslands.

Kennsla í Háskóla Íslands samanstendur vanalega af 30 ECTS einingum þar sem nemendur eru í þremur til fimm áföngum í einu. Þó eru einhverjar deildir, eins og viðskiptafræðideildin, sem hafa tekið upp lotukerfi þar sem nemendur eru í tveimur námskeiðum í einu, í stað fjögurra.

Ef nemendur væru í einum áfanga í einu gæti það minnkað námsálag og má velta fyrir sér hvers vegna kennsla á Íslandi sé enn með fjóra áfanga í einu.

Guðrún Geirsdóttir

Guðrún segir ýmsa kosti og galla við lotukerfið. „Kostirnir við lotukerfi er að þú þarft bara að hugsa um eitt fag í einu og getur einbeitt þér að því. Svo er það bara búið og þá tekur við næsta námskeið þannig að það er að því leytinu til talsvert betra fyrir nemendur.“

Annar kostur við lotukerfið er að með því geta kennarar sinnt kennslu aðra önnina og sinnt svo rannsóknum hina önnina. Í staðinn fyrir að reyna að sinna bæði kennslu og rannsóknum samtímis, segir Guðrún.

„Gallinn er kannski sá að ef þetta [tími námskeiðs] er mjög knappt eða ef kennarar eða nemendur verða veikir og missa úr viku í þriggja vikna lotum, þá er búið að missa af 1/3 úr námskeiðinu,“ segir Guðrún.

Þá bendir Guðrún einnig á að ef sumar deildir eru með lotukerfi, en aðrar ekki, getur það skapað vandamál ef nemendur ætla að taka valgrein sem er ekki í deild með lotukerfi. „Þá þarf að púsla saman tveimur kerfum sem getur verið snúið,“ segir Guðrún.

Guðrún segir einnig einhverja vera á þeirri skoðun að lotukerfi henti ekki fyrir sumar námsleiðir, t.d. sé betra að læra tungumál hægt og rólega yfir lengri tíma. „Það geti verið erfitt að ætla að afgreiða franskt talmál á þremur vikum og svo aldrei aftur æfa það fyrir næsta ár.“

Þá segir Guðrún háskólann ekki hafa vald til þess að taka ákvörðun um að taka upp lotukerfi fyrir alla í háskólanum heldur verða deildirnar að ákveða það.

Guðrún segir þá að lokum „en það tekur oft langan tíma, að breyta svona hefðbundnum stofnunum“.