Heim Fréttir Hettupeysurnar fara aldrei úr tísku

Hettupeysurnar fara aldrei úr tísku

Sumartíminn endar og skólinn tekur við. Þó að sumarveðrið hafi ekki náð að uppfylla allar væntingar tekur haustið vel við háskólanema. Sólgleraugun eru lögð niður og hliðarveskinu skipt út fyrir skólatösku. Háskólanemar snúa aftur með stæl þetta haustmisseri. 

Blaðamaður Stúdentafrétta fór á stúfuna og kynnti sér tískustraumana á Háskólasvæði HÍ.

Yfirhafnir

Háskólanemar kjósa frekar þægindi, hlýju og praktíkina heldur en óþægindi. Munum sjá mikið af útivistajökkum og þá meiri hluti frá 66°Norður. Peysu-jakkar koma heitt inn þetta misseri ásamt klassísku leðurjökkunum. Nemar eru ekki hræddir við að klæðast litríkum fatnaði til að lýsa upp gráa himna.

Annars má ekki gleyma hettupeysunum sem fara aldrei úr tísku hjá skólafólkinu. Ásamt gömlu góðu prjónapeysunum sem hafa verið að koma heitt inn seinustu árin. 

Buxna veður

Það er mikið haldið í klassíkina þetta misseri. Gallabuxur koma sér vel fyrir á Háskólatorgi þrátt fyrir framkvæmdir. Buxnasniðin hafa líka gengið í gegnum breytingar. Munum sjá mikið af víðum og „low-rise“ gallabuxum sem gefa nemum meira rými til að einbeita sér að kennaranum frekar en óþægilegum buxum. 

Jakkafatabuxurnar koma sér vel fyrir í alls konar litum og sniðum. Einnig hafa cargo-buxurnar reynst nemum vel á skólagöngunni.

Skófatnaður

Íþróttaskór eru ekki bara notaðir í ræktinni, heldur líka í aðferðafræðitímum. Háskólanemar hlaupa á milli bygginga í næsta tíma og eru þægilegir skór mikilvægir. Einnig hafa nemar dregið upp vetrarskóna. Loðskór, brúnir útiskór og svartir leðurskór fá loksins að njóta sín á ný. Adidas skór, sem komu sterkir inn í byrjun árs, halda sér á sínum stað.

Aukahlutir

Þó að nemar finnist best að vera kósí sjáum við samt persónuleika þeirra skína í gegnum fylgihlutina. Hálsklútar koma sterkir inn til að vernda nemendur frá veikindum og derhúfur til að fela baugana.

Hefðbundnum skólatöskur hefur verið skipt út fyrir hliðartöskur og taupoka. Háskólanemar skreyta tölvurnar sínar með límmiðum til að tjá sig um ýmis málefni eða bara upp á gamnið. 

Svo má ekki gleyma mikilvægustu fylgihlutunum; orkudrykkjum og kaffibolla að hætti Hámu.