Hrekkjavakan verður haldin hátíðleg á fjölskylduíbúðum Félagsstofnunar stúdenta við Eggertsgötu í dag. Vegna takmarkana vegna COVID19 heimsfaraldursins hefur ekki verið hægt að halda upp á hátíðina nema að litlu leiti. Garðprófastur telur að allar svona uppákomur og hátíðarhöld er miða að börnunum í húsinu styrki samfélag íbúanna.
Nína Eck er garðprófastur Vetrargarða þar sem stúdentaíbúðirnar eru staðsettar. Hún segir að það setji strik í reikninginn að það sé ekki almennileg hússtjórn sem geti tekið að sér skipulagninguna. Fólk er þó hvatt til að merkja hurðirnar á íbúðunum sínum ef það vill taka þátt. Þátttakan felst í því að krakkar fara í búninga, banka á hurðir og syngja fyrir nammi. Settar verða upp skreytingar fyrir hátíðina og mun hússjóðurinn vera notaður til þess að styrkja þá sem hafa lítið á milli handanna. Þannig er tryggt að allir geti verið með.
,,Mér persónulega finnst andinn og samfélagið í húsinu vera stærsta ástæðan fyrir því að mér líði vel og langi að búa hérna. Viðburðirnir eru vissulega stór hluti að því að mynda þetta samfélag en það er líka mikilvægt að hafa vettvang eins og Facebook hópinn, þar sem íbúar geta bæði beðið um og boðið upp á ráð, aðstoð eða einstaka egg eða lauk“ segir Nína sem hefur búið á Vetrargörðum í 2 ár.
Vísindavefurinn segir að vegna áhrifa frá bandarísku sjónvarpi og kvikmyndum hafi aukist að Norðurlandabúar haldi upp á Hrekkjavöku að bandarískum sið. Hrekkjavakan eða Halloween er þó upprunalega keltneskur siður sem lagðist af í siðaskiptunum.