Af Evrópuríkjunum er Ísland fast að hælum Svíþjóðar af þeim löndum sem sendir flesta flóttamenn aftur til Grikklands – óháð höfðatölu, ef miðað er við fyrri helming ársins. Þetta kom fram á opnum hádegisfundi ,,Erum við að drukkna í flóttafólki?“, sem haldinn var á þriðjudaginn af Alþjóðamálastofnun HÍ, Höfði friðarsetur og Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands.
Flóttafólkið sem um ræðir hefur haft fyrstu aðkomu í Evrópu, í Grikklandi, og hlotið vernd þar. Til viðmiðunar hefur Þýskaland fengið flestar umsóknir frá flóttamönnum sem hafa hlotið vernd í Grikklandi. Af 468 umsóknum frá flóttamönnum sem höfðu þegar vernd í Grikklandi á fyrst helming ársins, sendi Þýskaland 8 flóttamenn aftur til Grikklands. Bæði Þýskaland og Holland hafa nú bæði hætt endursendingum flóttafólks til Grikklands og taka allar umsóknir til efnislegrar meðferðar nema í undantekningar tilfellum
Tilefni fundarins var umræða síðustu daga um móttöku fólks á flótta. Umræða um að ástandið sé stjórnlaust, að á Íslandi séu rýmri reglur en hjá nágrannalöndum okkar og nauðsynlegt sé að herða reglurnar til að koma í veg fyrir misnotkun á kerfinu.
Fjöldi fólks í samræmi við þróun mála
Eva Bjarnadóttir, stjórnmálafræðingur, var fundarstjóri og setti hún fundinn. Hún benti á að árið 2022 hafa 3500 manns komið til Íslands í leit að vernd. Þar af eru 60% frá Úkraínu og 20% frá Venezúela. Yfir 100 milljónir manns eru á flótta í heiminum og eru þau flest innan síns ríkis eða í nágrannaríki. Þar af er 1/3 með stöðu flóttafólks.
Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor í alþjóðasamskiptum við Háskóla Íslands, tók til máls og sagði að tölurnar sýni að fyrir utan markvissar ákvarðanir um að taka á móti flóttafólki frá Úkraínu og Venezúela þá er Ísland ekki að drukkna í flóttafólki. Þessi fjöldi fólks sé í fullkomnu samræmi við þróun mála og ekkert lát sé á fjölda flóttafólks. Þessi hópur mun bara stækka og við þurfum að fara horfast í augu við það
Framkvæmdin gæti breyst ef mál færi fyrir dóm
Kári Hólmar Ragnarsson, lektor lagadeild Háskóla Íslands, tók til máls og segir að almennt er sagt að Ísland túlki öll ákvæði og lög varðandi flóttafólk með þrengsta mögulegum hætti. Þær ástæður sem þurfa að vera fyrir hendi að fólk sé ekki sent til baka er að því bíði ómannúðlegar aðstæður eða mögulegar pyntingar. Kári segir að Ekki megi láta eins og önnur ríki hafi einfalda og samhæfða framkvæmd í þessum málaflokki. Þessi málaflokkur sé mjög flókinn ekki bara á Íslandi og ekki sé hægt að bera hann saman milli ríkja. Dómaframkvæmdin sé brotakennd allsstaðar í Evrópu. Það séu stjórnvöld sem geti breytt framkvæmdinni eða kærunefnd útlendingamála, sem hefur heimilað þessar endursendingar. Framkvæmdin gæti breyst ef mál færi fyrir dóm.
Aðalmeðferð fimm manna fjölskyldu sem kom frá Írak fyrir tveimur árum er á dagskrá héraðsdóms Reykjavíkur 18.nóvember næstkomandi. Fjölskyldan var flutt með lögreglufylgd til Grikklands 3. nóvember síðastliðinn og getur því hvorki gefið skýrslu fyrir dómnum né borið vitni.
Verðum að taka umræðuna um rasisma
Silja Bára sagði að viðbrögð stjórnvalda byggist á hugmynd og framsetningu á að flóttafólk sé ógn við öryggi okkar Íslendinga. Þau sem ekki hafa rætur að rekja til Íslands, 1000 ár aftur i tímann, og eru öðruvísi á litinn en við, eru ógn við land og þjóð.
Íris Ellenberg dósent á menntavísindasviði Háskóla Íslands segir að íslendingar vilji handvelja það fólk sem kemur hingað til landsins, eftir mögulegri aðlögunarhæfni þess og hversu vel það geti þjónað atvinnulífi eða byggðarþróun landsins. Helst viljum við fá til landsins þau sem geta verið mögulegt vinnuafl. 50 þúsund erlendir ríkisborgarar eru á Íslandi og flóttamenn aðeins brotabrot af þeim fjölda. Íris segir umræðuna um flóðbylgju flóttafólks sé gamall tónn sem kveði við í sögu Íslands, varðandi flóttamenn. Það sé afmennskandi að tala um að fólk sé fljóðbylgja.
Harðar aðgerðir síðustu daga
Íris segir að leita þurfi aftur til ársins 1921 til að sjá viðlíka harðar aðgerðir eins og í síðustu viku þar sem 15 manns voru send aftur til Grikklands frá Íslandi. RÚV greindi frá því að hælisleitendur hefðu verið handteknir og þrír settir í gæsluvarðhad á Hólmsheiði í aðdraganda brottflutningsins til Grikklands. Þá bendir Silja Bára að á einni nóttu fyrir 50 árum hafi Ísland tekið við 5000 manns. Þar á hún við Vestmannaeyjargosið 1973, er þúsundir manna þurftu að flýja heimili sín upp á meginlandið.
Hægt er að nálgast upptöku af fundinum hér: Er Ísland að drukkna í flóttafólki?