Heim Fréttir Málfrelsi á aðeins átta dollara

Málfrelsi á aðeins átta dollara

Christian Christensen segist lesa það milli línanna að Elon Musk hafi keypt Twitter, gagngert til þess að grafa undan faglegri blaðamennsku.Hann segir líka að Musk gefi sig út fyrir að vera málsvari málfrelsis. Í rauninni sé Musk þó að smætta það niður í söluvöru. Hvert sé þá markaðsgildi málfrelsisins? Samkvæmt Christensen þá er það átta dollarar á haus á samfélagsmiðlinum X. Christiensen hélt erindi undir yfirskriftinni „Elon Musk, goðsagnir um málfrelsið og daður við öfga-hægrið“ á dögunum í Háskóla Íslands en nú er ár síðan Musk keypti samfélagsmiðilinn.

Samkvæmt Christensen var stóri kosturinn við Twitter fyrir tíma Musk sá að blaðamenn gátu notað upplýsingar þaðan með nokkuð áreiðanlegum hætti. Það er, þeir gátu verið nokkuð vissir um að þeir væru að vitna í manneskjuna sem skráð var fyrir orðunum vegna bláa haksins sem var merki um að Twitter hefði sannreynt að notandinn væri sá sem hann sagðist vera. Musk hinsvegar gerði þessa sannvottun að söluvöru.

Fyrir aðeins átta dollara fæst ekki bara merkið, sem fyrir vikið missir marks, heldur fylgi í kaupbæti mögnun á því sem viðkomandi hefur að segja. Það er, keypt blámerkt tíst raðast ofar en ókeypis tíst. Christensen vildi samt meina að gamla fyrirkomulagið hafi ekki verið gallalaust, það hefði mátt vera meira gagnsæi í því hver fengi sannvottun og hver ekki, en honum fannst gamla fyrirkomulagið í öllu falli betra en það nýja.

Upplýsingaóreiða og hatursorðræða

Christensen ræddi breytingu á landslagi Twitter við eigendaskiptin. Samkvæmt honum þá sendi það ákveðin skilaboð að Elon Musk hafi boðið fjölmörgum einstaklingum að snúa aftur úr Twitterbanni. Hann telji að fólk sem aðhyllist öfgakenndari skoðanir sjái þau skilaboð sem boð um að viðra þar vafasamar skoðanir. Allt í nafni málfrelsis.

Christensen sýndi jafnframt gögn þess eðlis að hatursorðræða hafi aukist á Twitter við eigendaskiptin. Eftir fyrirlesturinn sagði hann að gamla Twitter hefði kannski mátt gæta að meiri sanngirni og gagnsæi þegar kom að því hverjir væru bannaðir og hverjir ekki. Hins vegar taldi hann það senda skýr skilaboð að bjóða einstaklinga velkomna aftur sem hafi gerst sekir um hatursorðræðu.

Christensen segir líka að Elon Musk viðhafi orðræðu sem sé til þess fallin að draga úr trúverðugleika fjölmiðla. Tali um Woke-isma og áróður í meginstraumsfjölmiðlum og hvetji til þess að lesa frekar stöðuuppfærslur á X heldur en fréttir úr þeim. Þetta birtist svo í aukinni upplýsingaóreiðu á Twitter.

Frjáls orðræða í söluvænum umbúðum

Þegar kemur að því að gera málfrelsið að söluvöru talaði Christensen um að Musk hefði talað um að koma aftur á fót hinu svokallaða þorpstorgi. Þar sem skoðana skipti geti átt sér stað án afskipta yfirvalda, undir formerkjum málfrelsis. Hann telur þó að skoðanaskipti á slíku þorpstorgi geti ekki verið jöfn meðan sumir greiði fyrir „gjallarhorn“.

Christensen ræddi hugmyndir sem Musk hafi látið í veðri vaka um að láta alla notendur kaupa aðgang að X. Þótt hugmyndin sé að hafa það ódýrt yrði það ekki lengur „Þorpstorg“ heldur nokkurs konar „Þorpsverslunarmiðstöð“ eða „þorpsgolfvöllur“. Það er, þú mátt vera með ef þú borgar gjaldið en annars ekki. Christensen telur það ekki samræmast lýðræðislegum sjónarmiðum. Það væri í rauninni að taka málfrelsið, pakka því í notendavænar umbúðir og skella verðmiða á það. Enn þurfi ekki að greiða fyrir aðgang en fyrirgreidd „gjallarhorn“ geri samfélagsumræðu erfitt um vik.

Í lok fyrirlestursins sagðist hann þó enn nota samfélagsmiðilinn. Þar sé enn vitræna samfélagsumræðu að finna þrátt fyrir allt, en um leið og hún hverfi myndi hann láta sig hverfa þaðan ansi hratt.