Nýverið opnaði Morgunbar Hámu og hafa vinsældir hans farið ört vaxandi frá opnun.
Morgunbarinn er á Háskólatorgi á sama stað og hin gamalkunni salatbar í hádeginu. Hann opnaði 6. september síðastliðinn og býður upp á morgunverðarskálar með nokkuð hefðbundnu sniði. Viðskiptavinir geta valið á milli hafragrautar, skyrs og grísks jógúrts og ýmissa bragðauka svo sem ávaxta, berja og múslí.
Samkvæmt Terezu Hasenöhrlovà starfsmanni Morgunbarsins hafa vinsældirnar aukist frá opnun. „Hann er vinsæll meðal nemenda en líka meðal starfsfólksins hér í Hámu sem koma í hópum til að fá sér morgunverð,“ segir Tereza.
Signý Gísladóttir, þjónustu- og markaðsfulltrúi FS, segir að þrátt fyrir að Háma hafi lengi boðið upp á hafragraut á morgnanna, þá hafa verið frábærar viðtökur við þessu nýja sniði.
Nemendur líklegir til þess að skella sér oft á barinn
Nemendur eru almennt mjög ánægðir með Morgunbarinn í Hámu. Lára Debaruna Árnadóttir og Thelma Rún Sveinsdóttir, nemendur í félagsfræði, voru sérlega ánægðar með hvað hann væri skynsamlega verðsettur og töldu sig líklegar til að nýta sér hann oft í framtíðinni. „Við erum nú þegar búnar að nýta okkur þetta oft,“ segir Thelma.
Það fer þó eftir námsvali hversu oft nemendur hugsa sér að þeir muni kaupa sér morgunverð á barnum. Jelena Tinna Kujundzic og Friðrika Arnardóttir, nemendur í viðskiptafræði, finnast morgunbarinn dásamlegur og sögðust vera líklegar til að fá sér hafragraut þegar þær eru að drífa sig á morgnanna. „Mér finnst verðið allt í lagi sanngjarnt, maður sættir sig við það,“ segir Friðrika. „Við ætlum samt að reyna að koma með þetta sjálfar,“ bætir Jelena við.