Heim Fréttir Umdeild skrásetningargjöld til umboðsmanns Alþingis

Umdeild skrásetningargjöld til umboðsmanns Alþingis

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands

Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur ákveðið að senda erindi til umboðsmanns Alþingis vegna skrásetningargjalda við skólann en Stúdentaráð segir skrásetningargjöldin ólögmæt og hefur farið fram á það að háskólinn endurgreiði stúdentum gjöldin aftur í tímann. „Erindið er beiðni um frumkvæðisathugun. Verið er að vekja athygli umboðsmanns á þeim þáttum skrásetningargjaldsins sem talin eru ólögmæt,“ segir Rakel Anna Boulter, formaður Stúdentaráðs, í samtali við blaðamann Stúdentafrétta.

Gísli Laufeyjarson Höskuldsson, lánasjóðssfulltrúi SHÍ og Rakel Anna Boulter, forseti SHÍ.

Málið hófst árið 2020 þegar fyrrum nemandi og starfsmaður skrifstofu Stúdentaráðs kærði skrásetningargjaldið til Háskólaráðs vegna grunsemda um ólögmæti. Stúdentaráð boðaði til blaðamannafundar 5. október síðastliðinn þar sem tilkynnt var að að áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólans hafi úrskurðað að grundvöllur skrásetningargjaldsins hafi verið ófullnægjandi og þar með verið brotið gegn lögmætisreglunni. Aftur á móti segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, að hann telji úrskurð áfrýjunarnefndar mistúlkun og að hann sjái engar forsendur fyrir því að háskólinn þurfi að greiða eitthvað til baka.

Stúdentaráð boðaði því til fundar 13. desember síðastliðinn þar sem fór fram atkvæðagreiðsla um hvort senda ætti erindi til umboðsmanns Alþingis um skrásetningargjöldin. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar var einróma, en 12 manns sóttu fundinn og greiddu öll atkvæði með tillögunni.