Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur boðað að skýrsla um námslánakerfið komi til afgreiðslu Alþingis næstkomandi nóvember, en samkvæmt niðurstöðum nýlegrar könnunar Stúdentaráðs á fjárhagsstöðu stúdenta finna 70% þeirra sig knúin til þess að vinna samhliða námi til þess að ná endum saman. Ráðherra nefnir þar margskonar mál sem stúdentar hafa gert hvað mestar athugasemdir við, svo sem grunnframfærslu, frítekjumark og styrkjafyrirkomulag. „Það blasir við að það þarf að ræða hvernig best sé að endurskoða fyrirkomulag endurgreiðslna og vextina,“ segir Áslaug Arna í svari til blaðamanns Stúdentafrétta.
Endurskoðun verði að taka mið af aðstæðum stúdenta
Rakel Anna Boulter, forseti Stúdentaráðs, tekur því fagnandi að hugsanlegar umbætur á námslánakerfinu verði að veruleika, en Stúdentaráð hefur kallað eftir skýrslu um námslánakerfið í rúmt ár. Stúdentar hafi frá upphafi lagt áherslu á að kerfið verði tekið í gegn í heild sinni við endurskoðun og verði hún að vera yfirgripsmikil þar sem stúdentar lifi enn við ófullnægjandi stuðningskerfi. Fjárhagslegir erfiðleikar stúdenta eru mjög miklir, en samkvæmt niðurstöðum könnunar Stúdentaráðs telja rúm 30% stúdenta á Íslandi fjárhagslega erfiðleika sína alvarlega eða mjög alvarlega.
„Kannski vongóð“
Rakel Anna segir að stúdentar voni að tekið verði tillit til þarfa þeirra í endurskoðun námslánakerfisins en þorir þó ekki að taka svo djúpt í árinni að segja að fólk sé bjartsýnt á endurskoðunina, en að þau séu kannski vongóð. Kröfur Stúdentaráðs séu meðal annars þær að lögfest sé að lánsupphæðir séu endurskoðaðar á milli ára, aukning á ríkisstyrkjum og að fleiri lántakar eigi möguleika á að vera úthlutað styrkjum á meðan námi stendur.