Heim Fréttir Stúdentar fyrir Palestínu segja vopnahlé skref í rétta átt: „Við erum bjartsýn...

Stúdentar fyrir Palestínu segja vopnahlé skref í rétta átt: „Við erum bjartsýn að einhverju leyti.“

Daníel Guðjón Andrason, félagi stúdenta fyrir Palestínu, segist að einhverju leyti bjartsýnn fyrir framhaldinu á Gaza. Hann segir vopnahléið skref í rétta átt en að íslensk stjórnvöld ættu að gera meira til að stuðla að friði. Stúdentar eigi að láta í sér heyra og tala af samúð.

Vopnahléið á Gaza hefur staðið tæpt síðan samkomulag náðist fyrir rúmum hálfum mánuði. Stríðandi fylkingar hafa sakað hvor aðra um brot á samningnum.

Ísraelsher hefur hert árásir á Vesturbakka og ísraelsk stjórnvöld hafa bannað UNRWA, Palestínskri flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna, að starfa í Jerúsalem og á hernumdum svæðum í Palestínu. Hamas slepptu fjórum kvenkyns hermönnum úr haldi á undan almennum borgurum. Ísraelar töldu það brot á samkomulagi.

Fyrsti fasi vopnahlésins er nú í fullum gangi. Í honum felst að átök séu stöðvuð tímabundið og gíslum sé sleppt úr haldi. Þá á Ísrael að hleypa mannúðaraðstoð í Gaza, draga herlið sitt af svæðinu og auðvelda heimkomu flóttafólks. Stríðandi fylkingar eru vongóðar um frið en óljóst er hvað gerist þegar kemur að fasa tvö – þegar semja á um að binda enda stríðið.