„Við í Viðskiptafræðideild fórum í ákveðna stefnumótun vegna þess að nemendur vildu fá tækifæri til þess að fara í starfsþjálfun, fá að beita þeirri þekkingu sem þau hafa öðlast í viðskiptafræðinni á verkefni í atvinnulífinu, auka tengslin og fá tækifæri til að komast jafnvel inn í draumafyrirtækið, stofnunina eða ráðuneytið og þetta er það sem við erum að láta verða að veruleika,“ segir Ásta Dís Ólafsdóttir, dósent og umsjónarmaður starfsþjálfunnar við Háskóla Íslands.
Í vor luku tæplega 100 nemendur starfsþjálfun Viðskiptafræðideildar, hjá auglýsingastofum, endurskoðunarfyrirtækjum, eftirlitsaðilum og ýmsum öðrum fyrirtækjum.
Haustið 2020 hófst starfsþjálfun fyrir nemendur í Viðskiptafræðideild og komið var á auknu samstarfi háskóla og atvinnulífs. Starfsþjálfun jafngildir einu valnámskeiði á BS eða MS stigi (6 eða 7,5 ECTS). Í dag geta nemendur í öllum deildum sótt um að komast í starfsþjálfun hjá Viðskiptafræðideild og fá það metið inn í námið í sinni deild.
Starfsþjálfun er afar mikilvæg til þess að ýta undir samstarf háskóla og atvinnulífs, skilar okkur í senn betri starfskröftum og betur menntuðu fólki út í atvinnulífið, að sögn Ástu Dísar. Stjórnendur fá inn nemendur til sín með ferska sýn og nýjustu strauma og stefnur og flestir þeirra hafa nefnt að það sé mikill ávinningur að fá inn ungt fólk sem hugsar öðruvísi eða sér hlutina með öðrum augum en þeir sem fyrir eru. Nemendur fá þjálfun og tengsl sem nýtast þeim að starfsþjálfun lokinni og opnar fyrir mörgum nýjar dyr, segir Ásta Dís.
Viðskiptafræðideild auglýsir stöður sem eru í boði og nemendur sækja um þær. Hægt er að sækja um hjá nokkrum fyrirtækjum ef nemendum finnst margar stöður spennandi. Fyrsta skrefið í starfsþjálfun er að útbúa áhugaverða ferilskrá og skrifa kynningarbréf sem vekur athygli stjórnenda fyrirtækjanna. Þarna eru nemendur komnir í raunverulegar aðstæður því ferlið er þannig að stjórnendur velja inn og taka viðtöl, eins og um hefðbundið starf væri að ræða. Tíu nemendur hafa fengið störf hjá fyrirtækjunum eftir starfsþjálfun þar.
„Í upphafi starfsþjálfunar setja nemendur sér bæði starfs- og námsmarkmið og það er mjög gaman að sjá hvað þau eru ólík, það er enginn nemandi með eins markmið, jafnvel þó tveir séu með sama bakgrunn og að fara í starfsþjálfun hjá sama fyrirtæki, það er það sem gerir þetta allt svo skemmtilegt og ýtir við manni að fólk er að gera hlutina á sínum forsendum. Þá höfum við einnig séð að nemandi sem var með áherslu á fjármál, skipti yfir í stjórnun eftir að hafa tekið starfsþjálfun, þannig að það er ýmislegt sem gerist, því þarna fá nemendur það beint í æð hvernig er að vinna í tilteknum atvinnugreinum,“ segir Ásta Dís.
„Við munum auglýsa starfsþjálfunarstöður fyrir haustið í byrjun apríl og það er um að gera að fylgjast með heimasíðu Viðskiptafræðideildar og Facebook síðu Viðskiptafræðideildar en allar auglýsingar munu fara þangað inn, auk þess sendum við öllum nemendum í Viðskiptafræðideild póst þegar allar auglýsingar eru komnar inn. Umsóknarfrestur verður til 1.maí og þannig vita nemendur fyrir sumarfrí hvert þeir fara í starfsþjálfun haustið 2023,“ segir Ásta Dís Ólafsdóttir, dósent og umsjónarmaður starfsþjálfunnar við Háskóla Íslands.