Heim Fréttir Stúdentaráð fer fram á endurgreiðslu skrásetningargjalda

Stúdentaráð fer fram á endurgreiðslu skrásetningargjalda

Gísli Laufeyjarson Höskuldsson, lánasjóðssfulltrúi SHÍ og Rakel Anna Boulter, forseti SHÍ.

Stúdentaráð segir skrásetningargjöld Háskóla Íslands ólögmæt og krefst þess að gjöldin verði endurgreidd níu ár aftur í tímann. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem Stúdentaráð boðaði til í Mýrinni í Grósku fyrr í dag vegna úrskurðar áfrýjunarnefndar kærumála háskólanema frá 5. október síðastliðnum. „Stúdentaráð hefur ákveðið að kalla til blaðamannafundar vegna úrskurðar áfrýjunarnefndar kærumála háskólanema frá 5. október síðastliðnum. Leiddi sá úrskurður í ljós að skrásetningargjöld við Háskóla Íslands eru ólögmæt,“ segir Rakel Anna Boulter, formaður Stúdentaráðs.

Málið á rætur að rekja til ársins 2020 þegar fyrrum nemandi Háskóla Íslands og starfsmaður hjá skrifstofu Stúdentaráðs kærði skrásetningargjaldið til Háskólaráðs vegna gruns um ólögmæti þess. Lögum samkvæmt þurfi Háskólinn að sýna fram á útreikninga eða traustar áætlanir þar sem sýnt er fram á með skýrum hætti í hvað skrásetningargjaldið fer. Niðurstaða áfrýjunarnefndar er sú að skrásetningargjöldin við Háskóla Íslands eigi sér ekki skýra lagastoð.

Stúdentum geti munað miklu um skrásetningargjöldin

„Oft heyrist þegar upphæð skrásetningargjaldanna ber á góma að 75 þúsund krónur sé ekkert svo há upphæð… en gjaldið er hátt miðað við þjónustugjöld og það verður í öllu falli að innheimta með lögmætum hætti,“ segir Rakel Anna. Ennfremur segir Rakel Anna að ekki sé hægt að líta fram hjá þeirri grafalvarlegu fjárhagsstöðu sem stúdentar lifi við en samkvæmt nýlegri könnun Stúdentaráðs meta 31% stúdenta á Íslandi fjárhagslega erfiðleika sína alvarlega eða mjög alvarlega. Þá finna 70% stúdenta sig knúin til þess að vinna samhliða námi til þess að ná endum saman, óháð því hvort þau taki námslán eða ekki.

Gengið út frá því að endurgreiðslur fari af stað

„Maður getur ekki gengið út frá öðru en að hann muni gera það. Háskólanum ber skylda til þess að endurgreiða öll gjöld sem hafa verið innheimt með ólögmætum hætti samkvæmt lögum opinberra innheimta og við göngum ekki út frá neinu öðru en að það verði bara gert,“ segir Gísli Laufeyarson Höskuldsson, lánasjóðsfulltrúi SHÍ, í svari við spurningu blaðamanns Stúdentafrétta um hvort aðilar Stúdentaráðs séu vongóð um að Háskóli Íslands muni endurgreiða stúdentum ólögmæt skrásetningargjöld.

Aftur á móti segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, að hann telji að verið sé að rangtúlka niðurstöðu áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema um endurgreiðslu skrásetningargjalds. „Það er ekki rétt að það sé búið að úr­sk­urða að gjaldið sé ólög­mætt, það er bara víðs fjarri að segja það,“ seg­ir Jón Atli í samtali við Morgunblaðið.