Heim Fréttir Stúdentaráð vill að samgöngupassar fyrir námsmenn verði fjármagnaðir

Stúdentaráð vill að samgöngupassar fyrir námsmenn verði fjármagnaðir

Stúdentaráð krefst að samgöngupassar fyrir námsmenn af evrópskri fyrirmynd verði fjármagnaðir í yfirlýsingu sem gefin var út á dögunum. Einnig krefst ráðið aukinna fjárframlaga til almenningssamgangna í heild sinni.

Í yfirlýsingunni kemur fram að Háskóli Íslands hefur nú þegar skoðað útfærslur varðandi slíkan samgöngupassa fyrir nemendur sína og að Stúdentaráð hafi átt í viðræðum við Strætó bs. Þurfi þó pólitískan vilja og fjármagn frá bæði ríki og sveitarfélögum til að passinn geti orðið að veruleika.

Yfirlýsingin viðbrögð við nýrri samantekt ASÍ á niðurgreiðslum til samgöngumála

Samkvæmt samantekt ASÍ var framlag ríkisins árið 2021 til Strætó bs. rúmur milljarður á meðan niðurgreiðsla ríkisins til kaupa á vistvænum ökutækjum voru um níu milljarðar. Auk þess tilkynnti Strætó á dögunum 12,5% hækkun á gjaldskrá sinni til að mæta kostnaðar- og verðhækkunum á aðföngum. Hækkunin sé komin til þess að koma í veg fyrir að skera þurfi niður innan leiðarkerfis Strætó.

Stúdentaráð lýsir yfir áhyggjum sínum varðandi stöðu á almenningssamgöngum á Íslandi og fer fram á að íslenska ríkið auki fjármagn til málaflokksins. Efla eigi almenningssamgöngur til muna og leggja eigi áherslu á að þær séu raunhæfur möguleiki fyrir námsmenn, bæði út frá umhverfissjónarmiðum og lágri tekjustöðu námsmanna.

Tímabilskort fyrir námsmenn hjá Strætó

Strætó innleiddi árið 2021 nýtt greiðslukerfi að nafninu Klapp þar sem boðið er upp á tímabilskort fyrir námsmenn. Hægt er að velja á milli mánaðarkorts og árskorts. Við upphaf haustannar 2022 kostaði mánaðarkortið 4.000 kr. og árskortið 40.000 kr. Nýlegar hækkanir á fargjöldum Strætó hafa þó hækkað mánaðarkort námsmanna upp í 4.500 kr. og árskortið upp í 45.000 kr.

Fyrir innleiðingu nýja greiðslukerfisins bauð Strætó upp á árskort með lánasamningi þar sem hægt var að dreifa greiðslum á nokkra mánuði. Í nýju greiðslukerfi Klapps er ekki boðið upp á þann valmöguleika og því þurfa námsmenn sem vilja kaupa árskort að greiða það að fullu með einni eingreiðslu. Fyrir þá námsmenn sem ekki keyptu árskort í byrjun annar hefur sú eingreiðsla nú hækkað um 5.000 kr.