Á nýlegum fundi Háskólaráðs var fjallað um gjaldtöku fyrir bílastæði á lóð Háskóla Íslands. Heildaráætlun um málið mun liggja fyrir um árslok og er gert ráð fyrir að gjaldtaka hefjist um mitt næsta ár.
Stúdentar og starfsfólk sem koma á bíl í skólann hafa ekki farið varhluta af því hversu langan tíma það getur tekið að finna bílastæði í nágrenni Háskólans. Enn sem komið er hafa stúdentar þó ekki þurft að borga fyrir bílastæði á flestum stæðum við skólann en á því verður fljótlega breyting.
Gjaldskylda hefur lengi verið í umræðunni og þrátt fyrir að stúdentar séu hlynntir vistvænu háskólasamfélagi eins og segir í ályktun þeirra, þá er mikilvægt að vandað sé til verka og að hagsmunir stúdenta verði hafðir að leiðarljósi.
Á fundi Háskólaráðs lögðu fulltrúar stúdenta fram bókun þar sem ítrekaðar eru óskir stúdenta um svokallaða U-passa, sem er samgöngukort að erlendri fyrirmynd.
Í bókuninni segir að bílastæðagjöld séu mikið hagsmunamál fyrir stúdenta og að nauðsynlegt sé að kynna fyrirhugað verð og fyrirkomulag gjaldtöku fyrir stúdentum áður en gjaldtaka er kynnt.