Heim Fréttir Styttist í rektorskjör

Styttist í rektorskjör

Fimm einstaklingar hafa tilkynnt framboð sitt til rektors Háskóla Íslands en umsóknarfrestur rann út á miðnætti þann 31. janúar til að gefa kost á sér í embættið. Jón Atli Benediktsson hefur sinnt embættinu í 10 ár en hann hyggst ekki sækjast eftir endurkjöri.

Þeir einstaklingar sem tilkynnt hafa framboð sitt eru Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, Magnús Karl Magnússon, læknir og prófessor við Háskóla Íslands, Kolbrún Þ. Pálsdóttir, sviðsforseti og dósent við Menntavísindasvið, Björn Þorsteinsson, prófessor við sagnfræði- og heimspekideild og Ingibjörg Gunnarsdóttir, næringarfræðingur og aðstoðarrektor vísinda. Kynnt verður svo formlega hverjir frambjóðendur eru í kjölfar fundar háskólaráðs sem er á fimmtudaginn 6. febrúar.

„Kosningin er rafræn og hún tekur í raun og veru tvo virka daga, frá 9 að morgni á fyrri deginum og til klukkan 17 á síðari deginum,“ segir Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóri skrifstofu rektors. Skráðir stúdentar hafa atkvæðisrétt í rektorskjöri en atkvæði starfsmanna vega 70% og atkvæði stúdenta 30%.