Heim Fréttir Telur ekki að óveðrið verði sögulegt

Telur ekki að óveðrið verði sögulegt

Haraldur Ólafsson veðurfræðingur og prófessor í veðurfræði við Háskóla Íslands telur enga ástæðu til þess að hafa miklar áhyggjur af komandi óveðri.

„Ég er ekkert að gera lítið úr þessu veðri, en þetta er ekki augljóslega eitthvað veður sem kemur bara á tíu ára fresti“. Haraldur sjálfur hefur ekki miklar áhyggjur af veðrinu og segist hann ætla að skorða öskutunnurnar og láta gott við heita þar.

Haraldur Ólafsson, veðurfræðingur og prófessor

Telur ekki miklar líkur á tjóni

Veðrið segir hann að muni einkennast af hvössum vindhviðum. Vindáttin er há-sunnanátt og segir Haraldur það vera einstaklega hagstæða átt fyrir Reykjarvíkursvæðið en að verst verði veðrið líklega á Norðanverðu Snæfellsnesi, undir Skarðseyri og Akrafjalli. Haraldi finnst ólíklegt að það verði mikið tjón þó að sumir staðir gætu orðið verr fyrir en aðrir. Fyrir stuttu reið einnig óveður af svipaðri tegund yfir landið, þegar sú staða er uppi eru minni líkur á röskun og tjóni. Hvassviðri verður um alla höfuðborgina en telur Haraldur að hún muni sleppa tiltölulega vel við mesta veðurofsann.

Ekki nauðsyn að fella niður skóla

Haraldur sagði sitt mat vera að ekki væri nauðsynlegt að leggja niður skólahald á Reykjavíkursvæðinu en að auðvitað sé munur milli svæða. ,,Auðvitað er það sums staðar sem að börn þurfa að ganga fyrir mikið bersvæði og þá þarf að meta aðstæður á hverjum stað fyrir sig. Þegar það þarf að fella niður skóla að þá er yfirleitt ekki tekin ákvörðun um slíkt fyrr en hægt er að sjá nákvæmlega hvernig þetta verður“. Nokkrir skólar staðsettir á landsbyggðinni hafa þegar ákveðið að fella niður skólahald og sömuleiðis hefur orðið töluverð röskun á flugi. Dagskrá Háskóla Íslands stendur enn óbreytt og ekki hefur verið send tilkynning um að veðrið muni raska skólahaldi.

Hætturnar leynist í hálkunni

Hvassar vindhviðurnar gera það að verkum að erfitt er að ná fótfestu í hálkunni. Mikil rigning verður á næstu dögum og útlit fyrir að klakinn bráðni að mestu. Haraldur varar þó við öðrum hættum í hvassviðrinu og segir hann mikilvægt að foreldrar yngri barna brýni fyrir þeim hvernig öruggast sé að ferðast á milli staða. ,,Ég myndi stinga upp á því að foreldrar fylgdu börnum sínum í skólann og ræði hvernig eigi að haga sér í óveðri“. Hættulegt er að vera nær gangstéttarbrúnum þegar hvassar hviðurnar geta feykt manni til hliðar á svipstundu og eins er auðvelt að missa stjórn á reiðhjólum.