Heim Fréttir Þýskir kvikmyndadagar í Bíó Paradís

Þýskir kvikmyndadagar í Bíó Paradís

Menningarhúsið Bíó Paradís stendur þessa dagana fyrir þýskum kvikmyndadögum en dagarnir standa yfir frá 24. febrúar til 5. mars. Í viðtali við blaðamenn segir Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradísar, að viðburðinn hafi verið hluti af starfseminni frá stofnun hennar.

Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri

„Við erum búin að vera að standa fyrir þýskum kvikmyndadögum síðan þetta bíó var stofnað í samstarfi við þýska sendiráðið. Við erum að bjóða upp á þverskurð af því áhugaverðasta (að okkar mati) sem er að gerast í þýskri kvikmyndagerð í dag. Þessir dagar byrjuðu síðasta föstudag en þeim lýkur núna á sunnudaginn. Við erum að sýna sex kvikmyndir og tvær heimildarmyndir en það er frítt á heimildarmyndirnar.”

Á meðal þeirra mynda sem sýndar eru er stórmyndin All Quiet On The Western Front sem slegið hefur í gegn á heimsvísu og var nýverið tilnefnd til 9 Óskarsverðlauna þ.á.m. sem besta myndin. Myndin fjallar um unga vini sem skrá sig í þýska herinn á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar og verður hún sýnd 5. mars.

Þær tvær heimildamyndir sem eru sýndar fjalla annarsvegar um börn sem bíða örlaga sinna í stríðshrjáðri Úkraínu og hinsvegar um kvenhatur á stafrænni öld. Fyrri myndin, A House Made Of Splinters, er m.a. tilnefnd til Óskarsverðlauna sem besta heimildarmyndin og mun leikstjóri myndarinnar sitja fyrir svörum að sýningu lokinni.

Bíó Paradís opnaði 2010 og tók þar við af kvikmyndahúsinu Regnboginn og er sem stendur eina listræna kvikmyndahúsið á Íslandi.

Hrönn hvetur alla sem hafa áhuga til að kynna sér dagskránna á bioparadis.is og lofar góðri skemmtun.