Stúdentaráð hefur komist að þeirri niðurstöðu að skrásetningargjöld við Háskóla Íslands, sem eru 75 þúsund krónur á ári, séu ólögmæt þar sem skrásetningargjaldið eigi sér ekki skýra lagastoð. Hefur Stúdentaráð því sett fram þá kröfu að Háskólinn eigi að endurgreiða stúdentum gjöldin níu ár aftur í tímann. Ennfremur hefur Stúdentaráð ákveðið að senda umboðsmanni Alþingis erindi um ólögmæti skrásetningargjaldsins. Aftur á móti hefur Jón Atli Benediksson, rektor Háskólans, lýst yfir því að hann botni ekkert í kröfu Stúdentaráðs og að hann sjái engar forsendur fyrir því að Háskólinn þurfi að greiða eitthvað til baka.
Þegar litið er til upphæðarinnar og þess hvernig Háskólinn er rekinn, þá er auðvelt að komast að þeirri niðurstöðu að hugsanlega séu kröfur Stúdentaráðs ósanngjarnar og að rökin fyrir þeim standi á brauðfótum. Sumir myndu jafnvel segja að það sé vanþakklátt að gera veður út af því að greiða 75 þúsund krónur á ári fyrir háskólamenntun sem mun nýtast fólki út ævina á mörgum sviðum. Háskóli Íslands hefur verið vanfjármagnaður árum saman en það er engin lausn að stúdentar setji sig upp á móti Háskólanum og krefjist endurgreiðslna sem nema um tíu milljörðum króna, til eða frá. Þeim stúdentum sem finnst óásættanlegt að þurfa að greiða þessa upphæð árlega fyrir menntun sína ættu að frekar að nýta krafta sína í að beita stjórnvöldum þrýstingi og krefjast þess að Háskólinn sé fjármagnaður á heilbrigðan hátt.
Það væri auðveldara að skilja kröfur Stúdentaráðs ef Háskólinn fengi veglega sneið úr peningakassa hins opinbera og væri rekinn með hagnaði. Starfsfólk skólans er ekki á neinum ofurlaunum og fá ekki mikil fríðindi í starfi. Rektor keyrir ekki um á Mercedes Benz í boði skrásetningargjalda frá stúdentum. Skrásetningargjaldið er sett á í þeim tilgangi að halda skólanum á floti. Best væri ef stúdentar og stjórnendur Háskólans myndu taka höndum saman um að krefjast þess að stjórnvöld verji meiri fjármunum í skólann. Þangað til ef og þegar heilbrigð fjármögnun skólans verður að veruleika ættu stúdentar að greiða skrásetningargjaldið með bros á vör, vitandi að þau eru að leggja sitt af mörkum við að halda rekstri Háskólans á floti.
Höfundur er framhaldsnemi í blaða- og fréttamennsku.