Heim Pistill vikunnar Úrræðaleysi í húsnæðismálum

Úrræðaleysi í húsnæðismálum

Svæðið þar sem Rauði krossinn opnar vonandi neyslurými með vorinu

Í vetur hefur ítrekað komið fyrir að einstaklingur leiti skjóls í sameigninni á Vetrargarði, stúdentablokk á Eggertsgötu eins og fram kom í Stúdentafréttum. Húsnæðismál virðast vera í ólestri víðast hvar á landinu og ástandið meðal annars mjög slæmt í Reykjavík. Félagslegt húsnæði vantar fyrir heilu samfélagshópana og virðist vera algjört úrræðaleysi víða í velferðarkerfinu. Niðurstaðan er grátleg þegar litið er til þeirrar staðreyndar að Ísland er meðal ríkustu ríkja í heimi.

Með það í huga ætti ekki að vera mikið mál að leysa þennan vanda. Það væri atvinnuskapandi að setja uppbyggingu í forgang, styrkja innviðina og skapa þannig tækifæri fyrir fólk sem þarf á stuðningi að halda hjá velferðarkerfinu. Sú var tíðin að fólk átti möguleika á að komast inn á fasteignamarkaðinn þrátt fyrir bág kjör. Hægt var að fá úthlutð félagslegu húsnæði sem greitt var smám saman inn á svo fjölskyldan í rauninni lagði fyrir í steypu. En nú er tíðin önnur.

Gríðarleg fjölgun fólks í útigangi

Heimilislausum fjölgar ár frá ári, tölur Hagstofunnar miða við manntöl frá árunum 2011 og 2021 þá fjölgaði heimilislausum úr 761 í 1.272 en þar af er útigangsfólk 111 og 194. Hlutfallsleg fjölgun á þessum áratug var mest hjá karlmönnum í útigangi eða tæp 87%.

Það er komin upp gríðarlega erfið staða í þessum málaflokki þar sem ásókn í gistipláss á gistiskýlunum er meiri heldur en plássin sem eru í boði. Þar sem slíkt gistipláss ætti að vera algjört neyðarúrræði þá skýtur skökku við að ekki sé meira gert til þess að styrkja aðrar stoðir. Til að mynda með fleiri smáhýsum og áfangaheimilum. Eins vantar fleiri félagslegar íbúðir til þess að fólk sem þarf á stuðningi að halda komist í húsaskjól. 

Betur má ef duga skal

Stjórnvöld tala um það að við viljum bera okkur saman við hin Norðurlöndin þegar kemur að flestum lagasetningum og reglugerðum og reynslan sýnir að svo nefnd finnska leið þar sem lögð er áhersla á húsnæði fyrst hafi gefið virkilega góða raun. Húsnæði fyrst er úrræði þar sem einstaklingi er útvegað heimili fyrst og í kjölfarið er farið að skoða ástæðurnar fyrir heimilisleysi viðkomandi. Reykjavíkurborg hefur komið upp einhverjum smáhýsum en betur má ef duga skal.

Þrjú gistiskýli eru rekin af borginni, tvö fyrir karla og eitt fyrir konur. Konukot er staðsett í Hlíðunum en gistiskýli fyrir karla eru rekin á Lindagötu og á Granda. Skýlin eru lokuð frá því klukkan tíu á morgnana og til klukkan 17. Nýverið var ákalli heimilislausra um húsaskjól yfir daginn, ekki síst vegna slæms tíðarfars, svarað með því að lengja opnunartíma Kaffistofu Samhjálpar. Á milli Grandaskýlisins og Kaffistofunnar er tveir og hálfur kílómetri eða rúmlega hálftíma gangur. Það getur verið ansi kalt í mestu frosthörkunum í fráhvörfum og jafnvel með flensu ofan í það. Konur, sem eru heimilislausar hafa, auk Konukots, aðgang að Skjólinu sem er aðstaða þar sem er bæði hvíldarherbergi og ýmiskonar afþreying í boði á daginn.  

Löng bið eftir úrræðum

Rauði Krossinn rak um tíma færanlegt neyslurými í bíl sem kallaðist Ylja en fyrir rétt tæpu ári lokaði það þar sem bíllinn varð ónýtur  Gríðarlegar tafir voru á því að opna rýmið í varanlegu húsnæði þar sem það strandaði hjá borginni að finna því stað en nú er búið að finna því lóð og vonir standa til að það opni í mars eða apríl í Borgartúninu, í grennd við Kaffistofuna. Það er ansi löng bið eftir lausnum á þessum vanda  og biðin er mjög erfið fyrir þá sem hvergi eiga sér samastað. Sérstaklega núna þegar snjónum kyngir niður og kuldinn smýgur inn í merg og bein. Ekki síst hjá þeim sem hafa ekki önnur úrræði en að halda til á götunni. 

Sæunn Valdís, höfundur er meistaranemi í Blaða- og fréttamennsku