Heim Fréttir Matargagnrýnendur Hámu tjá sig um hádegismatinn ,,Kartöflurnar sviku mig“

Matargagnrýnendur Hámu tjá sig um hádegismatinn ,,Kartöflurnar sviku mig“

Háma á Háskólatorgi sér um hádegismat nemanda og starfsfólks Háskóla Íslands á hverjum virkum degi á milli 11:30 og 13:30. Matseðillinn er fjölbreyttur og til að mynda bauð Háma upp á mat frá öllum heimshornum á meðan á alþjóðlegu vikunni stóð í Háskólanum. Það eru þó ekki allir sem vita af því að hægt sé að skrifa umsögn um matinn að hverju sinni inná Uglunni, námsvef Háskóla Íslands, en fáir stafsmenn Hámu könnuðust við að það væri umsagnarkerfi yfir höfuð.

Það eru ekki allir sammála því hve mikil gæði matarins eru að hverju sinni. Einkunnirnar og umsagnirnar eru margbreytilegar eftir dögum og matseðli. Skoðanir fólks eru mismunandi á matnum og er stjörnugjöfin í samræni við það. Til að mynda voru tveir sem gáfu matnum fimm stjörnum 3. febrúar á meðan einn gaf matnum tvær stjörnur, það telst því lítið samræni á meðal gagnrýnanda.

Matargagnrýnendur Hámu taka þó hlutverki sínu misalvarlega. Það eru ekki margir sem nýta sér þetta umsagnarkerfi og svo virðist sem í heildina séu um 2-3 á dag sem skrifa umsagnir um matinn og eru þær allar nafnlausar. Oft á tíðum reynast umsagnirnar ansi skemmtilegar, til að mynda skrifar einn umsögn þann 9. nóvember um að hafa verið svikinn af sykurbrúnuðum kartöflum og missti því einkunnagjöfin heila stjörnu fyrir vikið. Annar skrifar umsögn um að kokið verði aldrei það sama eftir lambaveisluna sem boðið var upp á í hádeginu. Til að skoða umsagnirnar þarf að vera með aðgang að Uglu.