Samkvæmt nýjustu fréttum stöndum við nú frammi fyrir verkföllum eftir að stéttarfélagið Efling sleit viðræðum við Samtök atvinnulífsins. Forystumenn Eflingar telja félagsmenn sína búa við erfiðari lífsskilyrði en aðrir vegna hærra húsnæðiskostnaðar á höfuðborgarsvæðinu og krefjast þess vegna meiri launahækkana en önnur stéttarfélög hafa fengið. Forsvarsmenn deiluaðila skylmast í sjónvarpsviðtölum og áhorfendur skiptast í fylkingar.
Nótt hinna löngu hnífa hjá verkalýðshreyfingunni
Raunar er deilan með aðeins öðruvísi móti en áður því verkalýðshreyfingin er sjálf klofin: með því að stilla samningunum upp sem baráttu milli borgar og landsbyggðar eru Eflingarmenn komnir út á hálan ís. Hugmyndir þeirra fóru illa í Vilhjálm Birgisson formann Starfsgreinasambandsins sem segir Stefán Ólafsson, sérfræðing hjá Eflingu, vera með sínum skrifum að „sturta prófessorstitli sínum í ruslflokk.‟
Þetta er allt hin skemmtilegasta sápuópera fyrir okkur áhorfendur en fyrir utan það er hugmyndafræðilegt gildi þessara skylminga frekar rýrt. Venjan er að bjóða upp á vöfflur þegar samningum lýkur en nú er okkur fyrst og fremst boðið upp á gamlar lummur, hvaðan sem þær koma.
Ein lumman kemur frá verkalýðshreyfingunni, en samkvæmt henni er ekki hægt að framfleyta sér á lágmarkslaunum. Samkvæmt henni verður að hækka launin hressilega vegna þess að annars geta launþegar einfaldlega ekki „náð endum saman.‟ Fáir þora að andmæla af ótta við að vera stimplaðir „handbendi auðvaldsins‟ eða annað álíka, en málið er ekki svona einfalt. Það er vel hægt að lifa á lágmarkslaunum, spurningin er frekar: langar einhvern til þess?
Munaður verður að lífsnauðsyn
Stefán Ólafsson, prófessor emeritus í félagsfræði, byggir sína greiningu á neysluviðmiðum félagsmálaráðuneytisins sem voru gefin út árið 2011 og uppfærð reglulega eftir það. Það sem Stefán „gleymir‟ að nefna er að þessi neysluviðmið voru aldrei ætluð sem skilgreining á því hvað getur talist vera lágmarksframfærsla til að „ná endum saman,‟ enda stóð það mjög skýrt í inngangi að skýrslunni: „neysluviðmið eru hvorki endanlegur mælikvarði á hvað telst nægjanleg neysla einstakra heimila né dómur um hvað einstakar fjölskyldur þurfa sér til framfæris.‟ Neysluviðmiðin voru einfaldlega ætluð til að gefa mynd af því hvað voru „dæmigerð‟ útgjöld hjá „dæmigerðu‟ íslensku heimili.
Og þar liggur hundurinn grafinn. Misskipting leiðir alltaf til þess að þeir sem standa neðarlega í tekju- og eignastiganum telja sig gjarnan hafa verið hlunnfarna, með réttu eða röngu, og reyna eins og þeir geta að komast nær „meðaltalinu.‟ Þetta leiðir af sér ýmisleg félagsleg mein svo sem óhóflega skuldsetningu, félagslega einangrun, vanlíðan, tortryggni milli ólíkra samfélagshópa, aukna glæpatíðni og verri heilsu. Þess vegna felst svo mikill ávinningur í því að halda misskiptingu í algjöru lágmarki.
Misskipting er að hluta til nauðsynleg og í sumum tilfellum sanngjörn en í samfélaginu sem við búum við í dag er stór hluti af þessari misskiptingu óþörf, ómálefnaleg og þar af leiðandi skaðleg. Sá vandi verður hins vegar ekki leystur með því að einblína á fátækt, því fátækt er afstæð og illa skilgreind: fyrir 200 árum síðan var sá sem átti torfhús með moldargólfi talinn ríkur maður, en í dag yrði hlegið að honum. Um leið og við efnumst sem samfélag færast viðmiðin upp: það sem einu sinni þótti munaður er nú orðið lífsnauðsyn, og þeir sem eiga ekki fyrir þessa „nauðsyn‟ eru dæmdir „fátækir‟ af samfélaginu og líta gjarnan á sig sem slíka.
Dæmi um hluti sem þóttu einu sinni munaður en þykja nú nánast lífsnauðsyn eru; bílar, sjónvörp, tölvur, snjallsímar, internetið, kjöt í hverri máltíð, háskólamenntun, langt sumarfrí, utanlandsferðir og mathallir. Stundum verða þessi hlutir svo sjálfsagðir að við byrjum að skipuleggja samfélagið með slíkum hætti að þeir sem eiga ekki aðgang að þeim geta varla lifað af lengur. Nýjasta dæmið um slíkt er snjalltækjavæðingin: sá sem vill ekki eða getur ekki notað rafræn skilríki hefur varla aðgang að opinberri þjónustu lengur.
Meiri kaupmáttur leiðir ekki til minni fátæktar
Aðferðin við að draga úr fátækt hefur hingað til verið sú að gera alla ríkari, en þá gerist það eina að neysluviðmiðin færast enn frekar upp og hlutfall þeirra sem eru undir viðmiðunum helst alltaf það sama. Það liggur í eðli meðaltalsins að það eru alltaf einhverjir yfir hann og aðrir undir. Kaupmáttur launa á Íslandi hefur tvöfaldast á síðustu 30 árum, en hvenær er nóg nóg? Fátæktin er alltaf til staðar og við rífumst áfram um sömu hlutina. Neyslukapphlaupið skýrir hvers vegna.
Hér er ekki verið að saka láglaunafólk um græðgi eða óhóflegar kröfur: það er hægt að færa ýmis rök fyrir því hvers vegna einhver ætti að fá stærri sneið af kökunni, jafnvel þótt viðkomandi sé ekki að svelta. Það væri heldur ekki sanngjarnt að láta þá lægst launuðu bera alla ábyrgðina á neyslukapphlaupinu sem hér er lýst: ábyrgðin er samfélagsins alls. Það er samfélagið sem skapar viðmið um hvað sé „hið góða‟ eða „hið venjulega líf,‟ eða hvað sé „eðlileg neysla.‟ Það er í eðli mannsins að eltast við fatatískuna eins og hún er hverju sinni, og það er sömuleiðis í eðli neytandans að eltast við það neyslustig sem er í tísku hverju sinni. Ef tekjur hans duga ekki til að standa undir því „neysluviðmiði‟ upplifir hann gjarnan félagslega einangrun og útskúfun.
Ef horft er á málið frá þessu sjónarhorni sést að fátæktin er ekki vandamálið, heldur auðlegðin: hinir efnuðu eru fyrirmyndirnar sem birtast okkur í tímaritum, fréttum, sjónvarpsviðtölum eða bíómyndum og við keppumst við að tileinka okkur sama lífsstíl og þeir. Þeir leiða þannig áfram neyslukapphlaupið og verða til þess að þeir sem tapa í því kapphlaupi telja sig hafa verið snuðaðir.
Ef tískan gæti hins vegar breyst í átt að minni misskiptingu, minni efnishyggju og meiri nægjusemi myndu hinir efnaminni verða að fyrirmyndum á meðan hinir ríku yrðu útskúfaðir. „Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir,‟ stóð í einhverri bók.
Stóra spurningin er: hvernig breytum við þeirri tísku?