Aukin öryggisgæsla er á Októberfest og eru notuð málmleitartæki við inngang hátíðarinnar. Arent Orri J. Claessen, forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands, segir öryggisgæslu alltaf verið mikla á Októberfest en hún sé aukin vegna alvarlegra aðstæðna í samfélaginu.
,,Ofbeldi er algerlega ólíðandi í hverri sinni mynd og engin undantekning á því á Októberfest“
Mikil aukning er á alvarlegum ofbeldisbrotum þar sem hnífum er beitt og hefur lögregla aldrei lagt hald á jafn mikið magn hnífa og síðustu ár samkvæmt Vísi. Markmið við notkun málmleitartækja er að sporna við vopnaburði á hátíðinni og þar með auka öryggi hátíðagesta. Arent segir að engin vopn hafi fundist á fyrsta degi Októberfest.
Margir af þekktustu tónlistarmönnum landsins stíga á stokk á Októberfest en búist er við nokkur þúsund gestum. Forseti Stúdentaráðs segir að það myndi ekki koma sér á óvart ef notkun málmleitartækja yrði fastur liður í öryggisgæslu hátíðarinnar.