Heim Fréttir Ein ný námsleið í boði í HÍ á haustönn

Ein ný námsleið í boði í HÍ á haustönn

Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Nýtt BA-nám í blaðamennsku hófst nú á haustönn við stjórnmálafræðideild HÍ. Samkvæmt upplýsingum frá námskrá er þetta eina nýja námsleiðin þetta haust. Á sama tíma voru ekki teknir inn nýir nemendur í tæknifræði þar sem umsóknir um námið voru ekki nægilega margar.

Kristinn Andersen
Kristinn Andersen

Það hefur verið boðið upp á nám í blaðamennsku á meistarastigi um árabil, en þetta er í fyrsta skipti sem er boðið upp á slíkt nám á grunnstigi. Samkvæmt upplýsingum frá Kristni Andersen, sviðsstjóra kennslumála, eru ríkar kröfur gerðar um stofnun nýrra námsleiða.

,,Vel þarf að skoða grundvöll fyrir stofnun nýrrar námsleiðar áður en ákvörðun er tekin um hana. Með nýrri námsleið fylgja skuldbindingar um námið og gæði þess til framtíðar, fjármögnun námsleiðarinnar og fleira sem þarf að horfa til. Tillögur um nýjar námsleiðir eru því rýndar ítarlega og farið er eftir sérstakri verklagsreglu innan HÍ um skipulag og samþykkt námsleiða”. Kristinn segir einnig að tillögur að nýjum námsleiðum þurfi samþykki viðkomandi fræðasviðs til að geta farið áfram í samþykktarferlinu.

Kristinn segir að síðastliðið vor hafi verið ákveðið að ef færri en 25 umsóknir bærust um nám í tæknifræði yrðu ekki teknir inn nýir nemendur fyrir það nám nú í haust. Raunin varð sú að ekki bárust nógu margar umsóknir og því var ekki boðið upp á námið fyrir nýnema.