Útlit er fyrir góðan hagnað af tónlistar og útihátíðinni Októberfest þetta árið og virðist vera að hann verði svipaður og í fyrra.
Októberfest SHÍ fór fram með pompi og prakt dagana 4.-6. september síðastliðinn. Arent Orri J. Claessen forseti SHÍ segir hátíðina hafa verið þá bestu til þessa. Ekki sé hægt að bera saman atriðin á Októberfest og annarra stórhátíða á borð við þjóðhátíð. Októberfest væri orðin svo fjölbreytt og góð. „Í einhverjum skilningi er þetta örugglega stærsta útíhátíðin tónlistarlega séð á Íslandi, alla vega þetta árið”.
Mikið úrval var af tónlistaratriðum á hátíðinni og í fyrsta sinn fenginn erlendur tónlistarmaður til að koma. Það var Dizzee Rascal sem á þekkt lög á borð við Bonkerz og Baseline Junkie. Arent segir það hafa gengið vel. Það hafi verið langþráður draumur hjá sér að fá Dizzee til landsins og hann ímyndi sér að flestir á háskólaaldri kannist við lögin hans. Hann voni að hægt verði að þróa hátíðina enn meira og fá úrvals listamenn hvaðanæva úr heiminum til að spila.

Dizzee var ekki eini listamaðurinn sem kom fram heldur voru einnig margar íslenskar stórstjörnur svo sem Páll Óskar, Sigga Beinteins, Svala Björgvins, GusGus og Amabadama sem komu og trylltu lýðinn. Eins og við mátti búast var eftirspurn mikil að sjá þessa listamenn stíga á stokk „við hefðum ekki getað selt fleiri miða, ég er alveg sannfærður um það” segir Arent.
Hagnaður svipaður og í fyrra
Lokatölur um hagnað SHÍ af hátíðinni liggja ekki enn fyrir en Arent segist búast við því að hann verði svipaður árinu á undan. Hann segir að rúmlega 3.000 helgarpassar hafi verið seldir og þó nokkrir dagpassar. SHÍ setti sér það hámark að selja einungis 4.000 miða á kvöldi. Arent segi líka að flestir þeirra sem sóttu hátíðina hafi verið stúdentar frá hinum ýmsu skólum en þó hafi verið nokkrir sem voru ekki í námi. Arent ítrekar þó að tilgangur hátíðarinnar væri ekki að koma út í hagnaði heldur að „byrja árið með stæl, að skemmta fólki og tryggja það að allir skemmti sér fallega”.

Arent sagði að mikil áhersla hafi verið á að gera enn þá betur en í fyrra, tryggja betri aðstæður fyrir gesti og tónlistarmenn og bæta kjör listamanna sem tóku þátt í hátíðinni. Einnig segir hann að öryggisgæsla hafi verið bætt, bæði varðandi mannafla og fjármuni sem lagðir voru í hana. Þó má nefna að nemendur sem rætt var við bentu á að ekki hafi verið málmleitartæki við inngang líkt og í fyrra. Arent segir það vera meðvitaða ákvörðun frá öryggisgæslunni þar sem það geti veitt falskt öryggi og í staðinn var notað háþróað myndavélakerfi og leitað var á öllum sem komu inn á svæðið. Einnig var reynt að skipuleggja hátíðina þannig að ekki væri alltof mikill dagamunur og að mannfjöldinn dreifðist frekar á alla þrjá dagana. Þó má nefna að nemendur sem blaðamaður rabbaði við tóku fram að flestir hafi verið á laugardeginum en þó var munurinn ekki gífurlegur.
Arent segir að engin alvarleg mál hafi komið upp á hátíðinni. Alla vega ekkert sem hann viti af og kallar hann það „sigur út af fyrir sig”.

Spennandi vetur framundan
Arent segir að stefnt sé á ýmislegt skemmtilegt í vetur og áætli SHÍ að halda aðra árshátíð eins og var gert á síðasta misseri. Hún verði jafnvel stærri og meiri en sú seinasta. Hann segir stemminguna hafa verið slíka að hann sé enn hálf meyr að hugsa til þess.
En hvað segja stúdentar?
Af þeim stúdentum sem blaðamaður ræddi við segja allir að stemmingin hafi verið mjög góð og skemmtilegt að mæta á viðburðinn. Þau keyptu sér öll helgarpassa en þó var mismunandi hvort það var í forsölu eða almennri sölu. „Mér fannst bara mjög skemmtilegt, þetta var þriðja skiptið mitt að fara og það er bara alltaf jafn gaman” segir Þórdís Erla Ólafsdóttir nemandi í sálfræði. Einnig var hún jákvæð fyrir hugmyndinni um að halda árshátíð aftur líkt og í fyrra. Hún myndi alla vega ekki láta sig vanta á slíkan viðburð.


Félagarnir Ingimar Ólafsson og Viktor Kolbeinn Sigurðarson hagfræðinemar sögðu að þeirra upplifun hafi verið mjög góð. Þó sagði Viktor „það lokaði helvíti snemma”. Þeir komust þó að þeirri niðurstöðu að það hafi bara verið fínt því þá hafi þeir komist niður í bæ eftir á. Aðspurðir um lokaorð báðu þeir félagar einfaldlega um stærra tjald næst og brostu.




