Með haustinu kemur nýtt skólaár og nýju skólaári fylgir nýtt námsefni. Nú þegar haustönnin er komin af stað og flestir stúdentar farnir að leggjast yfir bækurnar er vert að velta fyrir sér útgjöldum háskólanema í námsbækur. Hver eru útgjöld stúdenta vegna námsbóka? Eru nemendur einhverra deilda að borga meira en aðrir fyrir sínar bækur? Blaðamaður hitti á Halldóru Lenu Christians, verslunarstjóra Bóksölu stúdenta, og spurði hana spjörunum úr til að mynda hvort að starfsemi Bóksölunnar hafi breyst með tímanum og tæknivæðingu síðustu ára.
Mikill munur milli deilda
Halldóra segir svakalegan mun vera á kostnaði fyrir stúdenta eftir því hvaða greinar þau eru að læra. Lögfræðinemar og þeir sem stunda nám við heilbrigðisvísindasvið finni mest fyrir kostnaði í bækur: „Lögfræðingar og þau sem eru í þessum heilsugreinum, hjúkrunarfræðingar og læknar þurfa náttúrulega svo mikið af alls konar bókum“ segir hún og bætir svo við: „Það eru þau sem eru mest að koma hingað og kaupa, og kaupa reglulega aftur af því þau vantar eitthvað, stílabækur eða það er allt í einu komin önnur bók sem er búið að bæta við“
Hún segir nemendur á hugvísindasviði sleppa vel oftast nær og nefnir þar sérstaklega bókmenntafræðinga sem dæmi en þau þurfi oft mikið af skáldsögum sem kosta lítið í samanburði við stórar og miklar fræðibækur. „Þeir sem eru í bókmenntafræði eru kannski að kaupa fjórar fimm skáldsögur. Þær eru ekkert rosalega dýrar, kannski 5-6 þúsund krónur. En krakkarnir, greyin, sem eru að kaupa hjá okkur lögfræðibækurnar, þar er bókin á fimmtán þúsund krónur.“
Bækurnar sem kaupa þarf vegna náms í þessum greinum séu ekki bara dýrari og fleiri heldur þurfa stúdentar líka að eiga nýjustu útgáfu, segir Halldóra. „Í sálfræðinni er líka rosa mikið af stórum bókum sem er alltaf verið að uppfæra. Í heilbrigðisdeildinni eru bækurnar alltaf uppfærðar einu sinni á ári þannig að þau geta ekkert alltaf verið að kaupa skiptibækur, þurfa alltaf að kaupa nýjar og nýjar.“ Þá talar hún um að Bóksalan hafi reynt að halda skiptibókamarkað en það sé erfitt að halda í við endalausar nýjar uppfærslur á mörgum af bókunum.
Fyrsta árs nemarnir duglegir
Halldóra segir að munur sé á fyrsta árs nemum og þeim sem eru lengra komnir í náminu þegar kemur að innkaupum á bókum. Stúdentar átti sig á því þegar líður á námið að það sé mögulega óþarfi að kaupa allar bækur sem kennarinn mælir fyrir um. „Það eru fyrsta árs nemendur sem koma hérna alveg æstir með uglulistann en eru svo mikið að skila bókum þegar þau átta sig á því að Uglan er kannski ekki alveg hundrað prósent það sem kennarinn er að fara að kenna.“ Auk fyrsta árs nema eru það eldri nemendur sem eru duglegastir að koma og kaupa bækur samkvæmt Halldóru.
Halldóra segir að dregið hafi úr umsvifum hjá Bóksölunni síðustu ár með aukinni tæknivæðingu. Nemendur séu gjarnan að leigja bækurnar á netinu til þess að spara sér aurinn og kennararnir sendi jafnvel staka kafla úr einhverjum bókum til þess að einfalda nemendum lífið og þar með sleppa þeir við að kaupa alla bókina. Hægt og rólega lærir fólk inn á kerfið og áttar sig á því hvaða bækur þarf og hverjar ekki. Þessu fylgir líka takmörkuð sala á stílabókum og skriffærum þar sem nemendur glósa töluvert í tölvur og spjaldtölvur.
„Ég hef rætt við innkaupastjórann um þetta og hann segir alltaf “Þú hefðir átt að sjá hvernig þetta var fyrir 10 árum” af því að örtröðin er kannski svona tvær vikur, tvær og hálf vika, núna þegar önnin hefst og svo dettur eiginlega allt dálítið mikið niður, nema kannski í skáldsögum, gjafavörum og einstaka stílabókum en honum finnst þetta hafa minnkað töluvert mikið.“
Lögfræðin dýr, tómstundafræðinemar sleppa vel
Þegar bókakostnaður er tekinn saman í nokkrum greinum kemur strax skýrt fram að mikill munur getur verið á því hvað stúdentar þurfa að eyða miklu fé í bækur. Ef gert er ráð fyrir að nemendur kaupi allar bækurnar til að eiga, leigi þær ekki á netinu í styttri tíma, þá eru nemendur á fyrsta ári í lögfræði til að mynda að eyða hátt í 50.000 krónum bara á haustönn. Á sömu önn eru nýnemar í íslensku að eyða rúmlega 25.000 krónum í bækur og nemendur í tómstunda- og félagsmálafræði að eyða rúmlega 20.000 krónum í bækur. Það er því morgunljóst að mikill munur er á útgjöldum stúdenta í námsbækur en hér er aðeins gerð grein fyrir bókakostnaði fyrir þessa einu önn.