Heim Fréttir „Háskóli Íslands tekur ekki opinbera afstöðu til pólitískra álitamála líðandi stundar“

„Háskóli Íslands tekur ekki opinbera afstöðu til pólitískra álitamála líðandi stundar“

„Háskóli Íslands tekur ekki opinbera afstöðu til pólitískra álitamála líðandi stundar, en einstakir starfsmenn hafa fullan rétt á að setja fram skoðanir sínar og færa fyrir þeim rök“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, þegar hann var spurður hvort skólinn myndi feta í spor starfsfólks Hí sem hefur lýst yfir opinberum stuðningi við palestínsku þjóðina. Hluti af þeim aðgerðum felur í sér að sniðganga akademískar stofnanir í Ísrael og afþakka samstarf við ísraelskar menntastofnanir og akademískt starfsfólk. Landssamtök íslenskra stúdenta hafa í kjölfarið einnig gefið út yfirlýsingu þar sem þau fordæma framgöngu og stríðsglæpi ísraelskra stjórnvalda í Palestínu.

Með þessum hætti hafa 346 starfsmenn HÍ svarað ákalli Birzeit háskólans í Palestínu. Birzeit háskólinn er einn elsti og stærsti palestínski háskólinn á Vesturbakkanum. Starfsmenn Birzeit háskólans skora á fræðimenn, nemendur og stéttarfélög að uppfylla skyldur sínar með því að leita sannleikans. Yfir 900 fræðimenn við háskóla á Norðurlöndum hafa nú þegar tilkynnt að þeir ætli að sniðganga ísraelskar menntastofnanir og vísindamenn.

Ástand sem ekki er hægt að líta fram hjá

Í yfirlýsingu starfsmanna HÍ kemur fram að þau ætla að sniðganga akademískar stofnanir í Ísrael, afþakka samstarf við ísraelskar menntastofnanir og akademískt starfsfólk. Þetta á hins vegar ekki við um akademískt starfsfólk eða stofnanir sem hafa hafnað nýlendustefnu, aðskilnaðarstefnu, landráni og þjóðernishreinsunum ísraelska ríkisins á Palestínu og taka þátt í akademískri sniðgöngu. Að auki munu þau leggja sig fram við að styðja og auka samvinnu við akademískt starfsfólk í Palestínu. 

Þórir Jónsson Hraundal
Þórir Jónsson Hraundal

Þórir Jónsson Hraundal, lektor í Mið-Austurlandafræðum við HÍ er meðal þeirra sem skrifuðu undir yfirlýsingu til stuðnings Palestínu. Hann segir samstöðuna skipta máli: „Þetta eru óhuggulegar aðstæður, umræðan er orðin meira áberandi og fólk samþykkir þetta ekki“. Sú ákvörðun að sniðganga er þeirra leið til þess að beita stjórnvöldum þrýstingi og lýsir því að ástandið sé of hræðilegt til að lýta fram hjá. Hann setur aðstæður í samhengi við varnarlausan einstakling sem hópur manna gengur í skrokk á: „Ef horfum á þessar barsmíðar gerast fyrir augum okkar, lítum við undan eða veitum við hjálp. Hver er okkar ábyrgð ef við gerum ekki neitt, erum við þá samsek?“.

Akademísk sniðganga

Herferð samtakanna BDS, Boycott, Divestment, Sanctions, fyrir sniðgöngu á ísraelskum fræða- og menningarstofnunum hófst árið 2004 með því markmiði að berjast fyrir frelsi, réttlæti og jafnrétti Palestínumanna. Samtökin hvetja til sniðgöngu vegna viðvarandi hlutdeildar þeirra í afneitun Ísraela á réttindum Palestínumanna sem kveðið er á um í alþjóðalögum.

Í yfirlýsingu Birzeit háskólans er ábyrgð ísraelskra háskóla útmáluð. Fullyrt er að akademískar stofnanir gegni lykilhlutverki við að skipuleggja, innleiða og réttlæta hernáms- og aðskilnaðarstefnu Ísraels og viðhaldi einstaklega nánu sambandi við ísraelska herinn. Eftir áhlaup ísraelskra hermanna, sendi skólinn ákall til alþjóðasamfélagsins um að fordæma þessar aðgerðir með eins harkalegum hætti og mögulegt væri. Jafnframt var hvatt sérstaklega til fræðilegra sniðgönguherferða. Meira um það má finna hér.

Samkvæmt einum stærsta enskumælandi miðli Ísraels, The Times of Israel, er skólinn undir miklum áhrifum frá Hamas. Hamas sem eru skilgreind sem hryðjuverkasamtök hafa aukið umsvið sitt á vesturbakkanum. Miðillinn hefur áður fjallað um að kjörin stúdentahreyfing, fyrir skólaárið 2023-24, tengist Hamas sterklega. Þar er þeim lýst sem Hamas aktívistum. Ísraelskir hermenn gerðu áhlaup á háskólann 24. september síðastliðinn þar sem 8 nemendur voru handteknir, þar á meðal formaður stúdentafélagsins. Þetta er ekki einangrað atvik. Ísraelskir hermenn eru taldir hafa gert áhlaup á háskólasvæðið yfir tuttugu sinnum á undanförnum 28 árum. 80 nemendur frá Birzeit háskólanum nú í haldi Ísraels, samkvæmt staðbundnum miðlum frá Palestínu, vegna aktívisma.

Ekki í takt við grunngildi Háskóla Íslands

Háskólar á Íslandi hafa ekki gefið út neinar yfirlýsingar vegna ástandsins í Palestínu og Ísraels. Samstarfsnefnd háskólastigsins á Íslandi, sem mynduð er af rektorum allra íslensku háskólanna, fordæmdi hins vegar Rússa við upphaf innrásar árið 2022. Allt samstarfs milli HÍ og menntastofnana og fræðimanna í Rússlandi hefur jafnframt verið sett á ís.

Jón Atli Benediktsson
Jón Atli Benediktsson

Stúdentafréttir spurðu Jón Atla Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, hvort von væri á svipuðum viðbrögðum frá honum við stríðinu á Gaza, og gagnvart innrás Rússlands í Úkraínu 2022, þegar því var lýst yfir að allt samstarf við háskóla og stofnanir Rússlands hafi verið sett á ís?: „Nei. Akademískt frelsi er eitt af grunngildum Háskóla Íslands og í því felst að skólinn er vettvangur frjálsrar þekkingarleitar og óþvingaðra skoðanaskipta um hvað sem er þar sem allar raddir mega heyrast og það eitt gildir sem sannara reynist. Háskóli Íslands tekur ekki opinbera afstöðu til pólitískra álitamála líðandi stundar, en einstakir starfsmenn hafa fullan rétt á að setja fram skoðanir sínar og færa fyrir þeim rök. Þetta gera þeir sem frjálsir borgarar og frjáls skoðanaskipti um þetta mál eins og önnur eru lýðræðislegum samfélögum nauðsynleg. Innrás Rússlands inn í frjálst og fullvalda ríki Evrópu var fordæmalaus, a.m.k. á síðari tímum, og voru háskólarnir í álfunni utan Rússlands einróma í þeirri afstöðu að fordæma hana og bjóða stúdentum og starfsfólki á flótta tímabundið skjól. Við þetta bætist að Karazin háskólinn í Kharkiv, Úkraínu er hluti af Aurora samstarfsneti evrópskra háskóla, sem Háskóli Íslands leiðir, og var því nærtækt að veita þeim skóla stuðning eftir föngum.“ 

Fjórðungur starfsmanna við háskólann hefur skrifað undir stuðningsyfirlýsingu við Palestínu, fordæmt aðgerðir Ísraels og tilkynnt að þeir ætli að sniðganga ýmsar ísraelskar menntastofnanir og fræðimenn. Rektor var spurður hver væri afstaða háskólans gagnvart því? : „Eins og áður sagði koma þessir einstaklingar, núverandi og fyrrverandi starfsfólk, fram í eigin nafni og hafa þau fullan rétt á að sjá skoðanir sínar. Tjáningarfrelsi þeirra er óumdeilt og mikilvægt. Það væri hins vegar andstætt hugsjóninni um háskóla og grunngildum Háskóla Íslands ef skólinn tæki afstöðu til þessa málefnis, hvort sem er með eða á móti.“

Ísland er í samstarfi með skólum, meðal annars í Bandaríkjunum, sem hafa talað gegn sniðgöngu ísraelskra skóla. Meðal þeirra er Háskólinn í Columbia í New York-fylki. Skólinn lýsti yfir árið 2000 að hann myndi ekki fara í neinar sérstakar aðgerðir gagnvart ríkjum í deilum þar sem mörg önnur tiltölulega rótgróin átök eru um allan heim. Ári síðar sleit skólinn öll fjárhagsleg tengsl við Rússland eftir innrás þeirra í Úkraínu. Enn fremur hefur Háskólinn í Columbia nú takmarkað frelsi nemenda til að mótmæla aðgerðum Ísraels í Palestínu.