Heim Fréttir Menntavísindasvið heimilislaust

Menntavísindasvið heimilislaust

Menntavísindasvið
Menntavísindasvið í Stakkahlíð. Mynd ©Kristinn Ingvarsson

Menntavísindasvið er svo gott sem heimilislaust um þessar mundir og flakka kennslustundir á milli stofa og bygginga hér og þar í borginni. „Við erum að fá mjög mismunandi svör með það (hvenær Saga átti að vera tilbúin til kennslu). Það voru einhverjir kennarar sem sögðu við okkur í vor að við ættum að vera komin inn fyrir desember, síðan voru einhverjir kennarar sem sögðu að við myndum byrja í haust,“ sagði Halldóra Elín Einarsdóttir, nemandi í tómstunda- og félagsmálafræði sem fellur undir sviðið.

Óskýr svör til nemenda

Húsnæði Háskóla Íslands í Stakkahlíð, sem hefur hýst menntavísindasvið síðustu ár, er að hluta komið í hendur Listaháskóla Íslands. Sviðið er að flytja í Sögu, húsnæðið sem áður hýsti Hótel Sögu, en ákveðið millibilsástand hefur myndast í flutningunum. Sviðið hefur nú þegar afhent hluta af byggingunni í Stakkahlíð og Listaháskólinn hefur hafið kennslu þar. Saga er aftur á móti ekki tilbúin til að taka við nemendum menntavísindasviðs eins og er. „Ég var í tíma í Laugardalshöll fyrir þrem vikum og þá var sagt við mig að við færum í Sögu í næstu viku þannig að við erum að fá mjög mismunandi upplýsingar. Það er mjög mikil óvissa og það er ekki verið að segja okkur almennilega hvernig gengur,“ sagði Halldóra einnig.

Enn eru framkvæmdir í fullum gangi í Sögu

Nemendur orðnir svartsýnir

Lítið er um svör en hvar stunda þessir nemendur nám á meðan óvissan er slík? Halldóra segir hluta kennslu vera ennþá í Stakkahlíð en þar sem HÍ hefur nú þegar gefið upp Hamar, nýrri bygginguna í Stakkahlíð, til Listaháskólans sé ekki hægt að hafa alla tíma þar. Hún segir kennslu hafa farið fram í Laugardalshöll og að nemendur í grunnskólakennslu, þroskaþjálfafræði og íþróttafræði hafi einnig verið í tímum þar en þau séu búin að missa það húsnæði núna. Árnagarður hefur einnig tekið við hluta kennslu en hún segir jafnframt að stofurnar þar hýsi engan veginn nemendafjöldann og ekki séu borð fyrir alla í þeim stofum sem þau hafa fengið. Hún segir að aðrar námsbrautir á sviðinu hafi fengið að notast við safnaðarheimili í kirkjum og að yfir höfuð séu þau bara þar sem pláss finnst hverju sinni.

Hún segir mismunandi hversu langan fyrirvara þau fá um hvar næsti tími verði „Misjafnt, vanalega fáum við kannski að vita að í næstu viku verðum við þarna.“

En hafið þau einhverja hugmynd hvenær Saga verður tilbúin fyrir kennslu? „Nei, og við erum orðin bara frekar svartsýn. Þegar þau eru að segja eitthvað eins og: „Já síðan förum við þangað í næstu viku“ eða um áramótin eða eitthvað þá hugsum við bara: „Það er kjaftæði“ skiluru?“

Mikilvægt að hafa tilbúið plan B

Mynd ©Kristinn Ingvarsson

Kristinn Jóhannesson, Sviðsstjóri framkvæmda- og tæknimála hjá Háskólanum, segir að enn sé óvissa hvenær eigi að hefja kennslu í Sögu. „Það stóð til að byrja að kenna núna á haustmisseri en þegar að til kom þá var það mikill hávaði í framkvæmdum að það var ekki talið forsvaranlegt þannig það var ákveðið að fresta því fram yfir áramót.“ Hann segir framhaldið vera í höndum Menntavísindasviðs, hvenær þau vilji að kennsla hefjist í Sögu. Hann segir að bæði hafi þau þurft að leigja húsnæði af óháða söfnuðinum og Háteigskirkju og verið sé að vinna í því hvernig skal hýsa nemendur sviðsins á vorönn ef að framkvæmdir halda áfram að koma í veg fyrir endanlega flutninga í Sögu. Ef komi að því að ekki sé hægt að flytja í Sögu vilji þau vera undirbúin með plan B.